Rannsóknin afvegaleidd frá fyrstu stigum

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftilitsins, segir að rannsókn stofnunarinnar á máli Eimskips og Samskipa fordæmalausa að umfangi. Spurður um þann mun sem er á sektarupphæðum Eimskips annars vegar og Samskipa hins vegar þá vísaði hann til rökstuðnings í ákvörðuninni.  

„Það liggur í hlutarins eðli að ef fyrirtækið snýr sér til eftirlitsins, óskar eftir sátt, viðurkennir brot og liðsinnir með þeim hætti samkeppnisyfirvöldum, þá geta menn fengið lægri sektir en ella. Það er eitt af því sem horft er til,“ segir Páll aðspurður um muninn. 

Eins og fram hefur komið fékk Eimskip sekt upp á 1,5 milljarða króna en sekt Samskipa var 4,2 milljarðar skv. nýlegum úrskurði stofnunarinnar.

Samskip.
Samskip. mbl.is/Sigurður Bogi

Afvegaleiðing frá fyrstu stigum málsins 

Í skýrslunni kennir ýmissa grasa. Þar segir segir meðal annars að komist hafi verið að þeirri „niðurstöðu að við rannsókn þessa máls hafi Samskip gerst sek um ranga, villandi og ófullnægjandi upplýsingagjöf og gagnaafhendingu og brotið þar með gegn 19. gr. samkeppnislaga. Brot Samskipa torvelduðu og töfðu rannsókn málsins þar sem Samkeppniseftirlitið var afvegaleitt og þýðingarmiklum upplýsingum haldið frá rannsókninni frá fyrstu stigum hennar,“ segir í skýrslunni.

Rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar 

„Brot Samskipa fólust í því að við munnlega upplýsingagjöf Samskipa, í tengslum við húsleit Samkeppniseftirlitsins, veitti fyrirtækið ítrekað rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar um samskipti og samstarf við Eimskip. Einnig var um að ræða endurtekin brot Samskipa sem fólust í því að veita ekki upplýsingar og afhenda gögn samkvæmt upplýsingabeiðnum sem beint var að fyrirtækinu við rannsóknina.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert