„Ég held að allar svona ákvarðanir hafi aðdraganda,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, varðandi brotthvarf Helgu Völu Helgadóttur af þingi. Hún segir það þó vissulega ávalt tímamót þegar slík ákvörðun er tekin.
Kristrún var gestur Bergsteins Sigurðssonar í þætti Vikulokanna á Ríkisútvarpinu í dag og sagði þar brotthvarf Helgu Völu nýjan veruleika fyrir flokkinn, enda hafi hún verið öflugur þingmaður í störfum sínum.
Dagbjört Hákonardóttir, varamaður hennar Helgu Völu, tekur við sæti hennar á þingi en Helga Vala hyggst afhenda forseta Alþingis bréf á mánudaginn þar sem hún afsalar sér þingmennsku.
Spurð hvort áherslumunur á milli þeirra flokksystra hefði leitt til afsagnar Helgu Völu segir Kristrún ekki telja svo vera og vísar til viðtals við Helgu Völu sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.
Blés hún þar á allar sögusagnir um deilur á milli sín og Kristrúnar og ítrekaði að hún yrði áfram dyggur félagi í Samfylkingunni, en sagði lögmennskuna hafa togað mikið í sig undanfarið ár.
Sagði Kristrún ekkert óeðlilegt við það að fólk endurhugsi hvað það sé að eyða tímanum sínum í. Hún bætti við að hún bæri virðingu fyrir ákvörðun Helgu Völu en að auðvitað sæi flokkurinn á eftir fólki, rétt eins og á öðrum vinnustöðum.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sem var einnig gestur í þættinum tók undir með Kristrúnu og sagði að Helgu Völu yrði saknað á þingi.
„Hún er svona stór persónuleiki, þú finnur fyrir henni í þingsalnum. Hún er mjög beitt og hún er með mjög gott pólitískt nef.“