„Hefðum viljað hafa hana áfram“

Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingar.
Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þótt við hefðum viljað hafa hana áfram þá fögnum við líka nýju fólki,“ segir Logi Einarsson, þingflokksformaður Samfylkingar, um brotthvarf Helgu Völu Helgadóttur þingmanns Samfylkingar af þingi.

„Það eru sjónarsviptir af Helgu. Hún er öflugur þingmaður en líka skemmtilegur og kraftmikill félagi. En hugur hennar stendur annað og auðvitað óskar maður henni góðs gengis á nýjum vettvangi.“ 

Hann tekur fram að þó komi öflugt fólk í stað þeirra sem frá hverfi. Helga Vala hefur ákveðið að einbeita sér að lögmennsku á nýjan leik.

„Allt í dúnalogni hjá okkur“

Kristrún Frostadóttir er tiltölulega nýsest á formannsstól Samfylkingar og Guðmundur Árni Stefánsson var kjörinn varaformaður í fyrra. Spurður hvort brottför Helgu endurspegli sviptingar innan forystu flokksins svarar Logi:

„Helga gerir ágætlega grein fyrir þessu í Morgunblaðsviðtalinu,“ segir hann. Sögusagnir séu gjarnan settar af stað þegar breytingar verði og þá helst af andstæðingum.

„Það er allt í dúnalogni hjá okkur.“

Mánudaginn 12. september mun Helga afhenda forseta Alþingis bréf þar sem hún afsalar sér þingmennsku. Næst inn á þing er varaþingmaðurinn Dagbjört Hákonardóttir.

„Ég á eftir að sakna Helgu. Hún er öflugur þingmaður en ég virði hennar ákvörðun,“ segir Logi í lokin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert