Móðir 17 ára pilts er ósátt með afskipti og framkomu lögreglu í garð sonar síns og vinar hans á Ljósanótt í Keflavík.
Hún lýsir atvikinu, sem átti sér stað á föstudaginn, á Facebook-síðu sinni. Þar segir hún að drengirnir tveir hafi fengið lánaðan bíl frá foreldrum annars þeirra, en hafi rétt verið komnir út úr bílnum í Keflavík þegar lögregla hafi ætt að þeim með látum. Lögregla hafi þó haft lítinn áhuga á syni hennar. Hún hafi einblínt á vin hans sem er dökkur á hörund og spurt hvort hann væri með vopn eða fíkniefni á sér.
„Er þetta bara enn í gangi árið 2023...Fólk stoppað einungis vegna þess að það er dökkt á hörund?“ spyr Margrét Pálsdóttir, móðir eins piltsins, í færslu á Facebook í kvöld.
„Strákarnir verða furðu losnir enda bara röltandi um í rólegheitunum eins og annað fólk þarna. Þessi sem er dökkur neitar því að hann sé með eitthvað og ætlar að sýna lögreglunni hvað hann sé með í vösunum. Lögreglan öskrar á hann að taka hendurnar upp úr vösunum og ýta honum svo upp að vegg og byrja að leita á honum, 4-6 lögreglumenn og einn hundur.“
Segir Margrét að syni sínum hafa blöskrað aðför lögreglunnar svo mikið að hann hafi tekið snjallsíma sinn fram til að taka atvikið upp. Lögregla hafi þá brugðist illa við og hótað að færa drengina upp á lögreglustöð þar sem þeir væru á stjá utan útivistartíma.
„Drengirnir fara strax heim eftir þetta því þarna var búið að skemma fyrir þeim kvöldið og áreita drengina sem voru ekkert að gera,“ skrifar Margrét og spyr hvort ekki hefði verið betra ef lögreglan hefði verið kurteis, spurt um aldur og þá séð að engin hefði verið undir áhrifum.