Samfylkingin mælist áfram stærsti flokkur Íslands í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup, en fylgi flokksins mælist nú 28,6% og stendur í stað frá fyrri mánuði. Er það um þrefalt fylgi flokksins í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn heldur einnig sínu fylgi, en það mælist nú 21%.
Mestu breytingu milli mánaða má finna á fylgi Sósíalistaflokks Íslands, en fylgi þeirra hækkar úr 3,6% í 4,4% og hjá Flokki fólksins, þar sem fylgi fer úr 5,7% upp í 6,3%. Hins vegar dregst fylgi Framsóknarflokksins mest saman, eða úr 8,9% í 7,5%.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 34%, sem er svipað og samanlagt fylgi stjórnarflokkanna sem mælast með 35%.
Könnunin var framkvæmd dagana 1.-31. ágúst með netkönnun og var heildarúrtakið 10.076 manns og þátttökuhlutfallið 49,5%. Vikmörk á fylgi flokka eru 0,7-1,5%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr viðhorfshópi Gallup.