„Ekki hægt að veita þeim lækn­isaðstoð þarna uppi“

Lögreglumaður á spjalli við aðgerðasinna uppi í mastri hvalveiðiskipsins.
Lögreglumaður á spjalli við aðgerðasinna uppi í mastri hvalveiðiskipsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Staðan er bara óbreytt frá því í gærmorgun. Þær standa sem fastast uppi í möstrum hvalveiðiskipanna,“ segir Kristján Helgi Þráinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is en aðgerðasinnar hlekkjuðu sig við möstur tveggja hvalveiðiskipa í Reykjavíkurhöfn eldsnemma í gær.

„Við höfum spjallað við þær í morgun og þær segjast bara vilja vera áfram þarna uppi. Við höfum boðið þeim aðstoð við að komast niður og tryggja öryggi þeirra á niðurleið þar sem þetta er hættulegt,“ segir Kristján Helgi.

Ekki tekið vel í boðið

Aðgerðasinn­arn­ir El­issa og Ana­hita hafa ekki gefið eft­ir og standa sem fast­ast í kráku­hreiðrum Hvals 8 og Hvals 9. Bakpoki Anahitu var tekinn af henni í gær en í honum voru matarbirgðir og vatn. Hún hefur því verið án matar og drykkjar í meira en sólarhring og lögreglan hefur synjað óskum hennar og stuðningsfólki hennar, sem er á staðnum, um að koma vistum og lyfjum til hennar.

„Við erum búin að bjóða þeim að koma niður og fá hjá okkur mat og vatn og við erum allir af vilja gerðir til að aðstoða þær. Enn sem komið er hafa þær ekki tekið vel í þetta boð,“ segir Kristján Helgi.

Lýtur að húsbroti

Spurður hver sé ástæða þess að lögreglan neiti konunni um að fá vatn og vistir segir Kristján: 

„Við erum að vinna í máli sem lýtur að húsbroti sem er verið að fremja. Við viljum að þær fari af staðnum og fái svo að drekka og borða þegar niður er komið. Það er ekki hægt að veita þeim læknisaðstoð þarna uppi í 20 metra hæð. Það er ógerningur. Það er hættulegt fyrir lögreglumenn að fara þarna upp og við förum ekki að stofna öðrum í hættu með því að senda þá upp. Það yrði algjört ábyrgðarleysi hjá okkur.“

Sérð þú fyrir þér að þetta mál fái farsæla lausn?

„Já, já, eigum við ekki að segja það. Við erum á staðnum og höldum spjalli okkar við þær áfram. Við erum alveg rólegir og það er ekkert stress í þessu hjá okkur. Það eru nokkrir stuðningsmenn þeirra á staðnum sem eru eðlilega að styðja sitt fólk. Við skiljum það svo sem að einhverjir þeirra séu ósáttir og þannig er það bara.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert