Jarðskjálfti varð skammt suðaustur af fjallinu Skjaldbreið um klukkan hálfþrjú í nótt. Mældist hann 2,7 stig að styrkleika.
Fleiri skjálftar hafa fylgt í kjölfarið, bæði í nótt og í dag. Stærstur þeirra varð á ellefta tímanum í morgun og mældist 2,0 að stærð.
Skjálftinn í nótt er einn sá stærsti sem orðið hefur á svæðinu frá því hrina hófst þar í sumar.
Fjöldi skjálfta á Vesturgosbeltinu er fordæmalaus þegar litið er til síðustu ára. Svo rammt hefur kveðið að hrinunni að í byrjun ágúst höfðu fleiri en fimm hundruð skjálftar mælst í gosbeltinu frá áramótum.
Það eru fleiri skjálftar en mælst hafa á nokkru þeirra þrettán ára, sem á undan eru liðin.
Nú, um mánuði síðar, nálgast talan átta hundruð. Þar af hafa tæplega sjö hundruð skjálftar mælst síðustu tvo mánuði.
Flestir þeirra eiga upptök sín á tiltölulega afmörkuðu svæði, um 20 kílómetra norðaustur af Þingvallavatni eða 17 kílómetra norður af Laugarvatni.
Sjálft Vesturgosbeltið er um 120 kílómetrar að lengd og liggur frá Þingvöllum og norður fyrir Langjökul, sem þekur verulegan hluta beltisins.
Í þessu gosbelti er aðeins vitað um 26 eldgos á síðustu tíu þúsund árum, eða á því tímabili sem í jarðfræði er kallað nútími. Á sama tíma hafa fleiri en 200 hraun runnið á Reykjanesskaga.
Gos hafa þó að jafnaði verið mun stærri í Vesturgosbelti en á Reykjanesskaga.
Til marks um það þekur hraun mun stærri hluta fyrrnefnda beltisins.
Vísindamenn hafa síðustu ár varað við því að nýtt tímabil eldvirkni sé hafið á Reykjanesskaga. Vesturgosbeltið hefur ekki verið þar undir.
Hefur það til þessa verið skilgreint sem sérstakt gosbelti til aðgreiningar frá Reykjanesskagabeltinu. Hengillinn, suðaustur af Þingvallavatni, hefur verið talinn innsta eldstöð skagans.
Skilin eru þó ekki endilega skýr, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í ágúst. Vesturgosbeltið tekur enda við í beinu framhaldi af Reykjanesskaga.
Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagðist aðspurður telja það mögulegt að eldvirkni gæti færst austar inn í landið af Reykjanesskaga.
„Það hafa verið sett spurningarmerki við skilgreiningarnar á gosbeltunum,“ sagði Þorvaldur. „Það getur alveg verið að lifna við þarna í Vesturgosbeltinu. Hvort það tengist Reykjanesskaganum er aftur á móti óljósara.“
Þorvaldur kvaðst sömuleiðis telja að nýtt tímabil aukinnar eldvirkni yrði ekki einungis takmarkað við suðvesturhorn landsins.
„Ég er á því að við séum komin á tímabil sem verður ekkert bundið við Reykjanesskaga,“ sagði hann.
„Það getur vel komið upp á Vesturgosbeltinu og það getur líka jafnvel komið upp á Austurgosbeltinu. Við megum ekki gleyma því líka að þegar Skaftáreldar urðu, þá gaus út frá Reykjanesi. Það er alveg þekkt að sjá virkni á nokkrum gosstöðvum samtímis þegar það gýs á einni þeirra.“
Spurður af hverju þessi aukna virkni stafaði vísaði hann til möttulstróksins undir Íslandi, sem ásamt flekaskilunum hefur búið til landið og mótað það.
„Það bendir sumt til þess að möttulstrókurinn sé að eflast og að þetta séu afleiðingar af því. Maður veit það ekki fyrir víst en manni finnst það svo sem ekkert ólíklegt.“
Eins og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku er kvika síðustu þriggja eldgosa á Reykjanesskaga ólík nokkurri þeirri kviku sem sést hefur áður á skaganum.
Sú staðreynd rennir einna helst stoðum undir kenningu Þorvaldar.
Það er eitt kennileiti umfram önnur, sem skjálftahrinan hefur verið kennd við.
Í næsta nágrenni skjálftanna hvílir nefnilega hraunskjöldurinn Skjaldbreiður, ein þekktasta dyngja Íslands. Hann sést vel frá Þingvöllum enda 1.060 metra hár. Á toppi hans er mikill og djúpur gígur, um 300 metrar að þvermáli og um 50 metrar að dýpt.
Skjaldbreiður myndaðist fyrir um níu þúsund árum í löngu gosi, því sama og myndaði umgjörð Þingvallavatns.
„Það er erfitt að segja til um hversu stórt eldgos á þessu svæði yrði. Það er alltaf möguleiki á dyngjugosi,“ sagði Þorvaldur, spurður hvers kyns gos þarna kynni að verða, ef af því yrði nú.
Dyngjugos í ætt við það sem myndaði Skjaldbreið hefur ekki orðið á Íslandi í árþúsund. Eða ef til vill þangað til fyrir tveimur árum, en allt þykir benda til þess að gos síðustu ára séu vísir að litlu dyngjugosi.
„Mín tilfinning er sú að það sem er að gerast þarna í Fagradallsfjalli eru fyrstu skrefin í átt að dyngjugosi,“ sagði Þorvaldur.
Dyngjugos leiða oft af sér dyngjufjöll. En þau þurfa að standa mjög lengi til þess að mynda stórar dyngjur á borð við Skjaldbreið, sem tók um 30-100 ár að myndast.
„Hraunin sem koma í dyngjugosin koma af miklu meira dýpi, kannski af tuttugu kílómetra dýpi, á meðan önnur gos koma yfirleitt af tíu kílómetra dýpi. Dyngjugos tengjast heldur ekki beint gliðnun og sprungum, sem hin gera. Það er kannski grundvallarmunurinn,“ sagði Sigmundur Einarsson jarðfræðingur í samtali við mbl.is, í aðdraganda eldgossins sem varð í mars 2021.
„Menn kunna svo sem ekki nákvæmar skýringar af hverju þau koma svona einstaka sinnum. En meiriháttar dyngjugos, þau urðu flest fljótlega eftir að ísöld lauk. Síðan hefur verið frekar lítið um þau,“ sagði Sigmundur.
„Skjaldbreiður er kannski flottasta dæmið um svoleiðis.“