Fjöldi skjálfta nálgast átta hundruð

Tæplega sjö hundruð skjálftar hafa mælst síðustu tvo mánuði.
Tæplega sjö hundruð skjálftar hafa mælst síðustu tvo mánuði. mbl.is/Sigurður Bogi / Kort/map.is

Jarðskjálfti varð skammt suðaustur af fjallinu Skjaldbreið um klukkan hálfþrjú í nótt. Mældist hann 2,7 stig að styrkleika.

Fleiri skjálftar hafa fylgt í kjölfarið, bæði í nótt og í dag. Stærstur þeirra varð á ellefta tímanum í morgun og mældist 2,0 að stærð.

Skjálftinn í nótt er einn sá stærsti sem orðið hefur á svæðinu frá því hrina hófst þar í sumar.

Fordæmalaus fjöldi

Fjöldi skjálfta á Vest­urgos­belt­inu er for­dæma­laus þegar litið er til síðustu ára. Svo rammt hefur kveðið að hrinunni að í byrjun ágúst höfðu fleiri en fimm hundruð skjálft­ar mælst í gos­belt­inu frá áramótum.

Það eru fleiri skjálft­ar en mælst hafa á nokkru þeirra þrett­án ára, sem á und­an eru liðin.

Nú, um mánuði síðar, nálgast talan átta hundruð. Þar af hafa tæplega sjö hundruð skjálftar mælst síðustu tvo mánuði.

Flest­ir þeirra eiga upptök sín á tiltölulega afmörkuðu svæði, um 20 kíló­metra norðaust­ur af Þing­valla­vatni eða 17 kílómetra norður af Laugarvatni.

Skjálftarnir eiga upptök sín norðaustur af Þingvallavatni og norður af …
Skjálftarnir eiga upptök sín norðaustur af Þingvallavatni og norður af Laugarvatni. Kort/map.is

26 eldgos á tíu þúsund árum

Sjálft Vesturgos­beltið er um 120 kíló­metr­ar að lengd og ligg­ur frá Þing­völl­um og norður fyr­ir Lang­jök­ul, sem þekur verulegan hluta beltisins.

Í þessu gos­belti er aðeins vitað um 26 eld­gos á síðustu tíu þúsund árum, eða á því tíma­bili sem í jarðfræði er kallað nú­tími. Á sama tíma hafa fleiri en 200 hraun runnið á Reykja­nesskaga.

Gos hafa þó að jafnaði verið mun stærri í Vest­urgos­belti en á Reykja­nesskaga.

Til marks um það þekur hraun mun stærri hluta fyrr­nefnda belt­is­ins.

Eldvirkni gæti færst austar í landið

Vísindamenn hafa síðustu ár varað við því að nýtt tíma­bil eld­virkni sé hafið á Reykja­nesskaga. Vesturgosbeltið hefur ekki verið þar undir.

Hefur það til þessa verið skil­greint sem sér­stakt gos­belti til aðgrein­ing­ar frá Reykja­nesskaga­belt­inu. Heng­ill­inn, suðaustur af Þingvallavatni, hef­ur verið tal­inn innsta eld­stöð skag­ans.

Skilin eru þó ekki endilega skýr, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í ágúst. Vest­urgos­beltið tek­ur enda við í beinu fram­haldi af Reykja­nesskaga.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í berg- og eldfjallafræði við Háskóla Íslands, sagðist aðspurður telja það mögulegt að eldvirkni gæti færst austar inn í landið af Reykjanesskaga.

„Það hafa verið sett spurn­ingarmerki við skil­grein­ing­arn­ar á gos­belt­un­um,“ sagði Þorvaldur. „Það get­ur al­veg verið að lifna við þarna í Vest­urgos­belt­inu. Hvort það teng­ist Reykja­nesskag­an­um er aft­ur á móti óljós­ara.“

Brúarárskörð og Ólafshnjúkur í forgrunni. Í bakgrunni Hlöðufell, Skriðutindar, Skriða …
Brúarárskörð og Ólafshnjúkur í forgrunni. Í bakgrunni Hlöðufell, Skriðutindar, Skriða og Skjaldbreiður. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki bundið við Reykjanesskaga

Þorvaldur kvaðst sömuleiðis telja að nýtt tímabil aukinnar eldvirkni yrði ekki einungis takmarkað við suðvesturhorn landsins.

„Ég er á því að við séum kom­in á tíma­bil sem verður ekk­ert bundið við Reykja­nesskaga,“ sagði hann.

„Það get­ur vel komið upp á Vest­urgos­belt­inu og það get­ur líka jafn­vel komið upp á Aust­urgos­belt­inu. Við meg­um ekki gleyma því líka að þegar Skaft­áreld­ar urðu, þá gaus út frá Reykja­nesi. Það er al­veg þekkt að sjá virkni á nokkr­um gosstöðvum sam­tím­is þegar það gýs á einni þeirra.“

Gæti verið að eflast

Spurður af hverju þessi aukna virkni stafaði vís­aði hann til möttulstróks­ins und­ir Íslandi, sem ásamt fleka­skil­un­um hef­ur búið til landið og mótað það.

„Það bend­ir sumt til þess að möttulstrókur­inn sé að efl­ast og að þetta séu af­leiðing­ar af því. Maður veit það ekki fyr­ir víst en manni finnst það svo sem ekk­ert ólík­legt.“

Eins og Morgunblaðið greindi frá í síðustu viku er kvika síðustu þriggja eldgosa á Reykjanesskaga ólík nokk­urri þeirri kviku sem sést hef­ur áður á skaganum.

Sú staðreynd rennir einna helst stoðum und­ir kenn­ingu Þorvaldar.

Skjaldbreiður í vetrarbúningi. Mynd úr safni.
Skjaldbreiður í vetrarbúningi. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Alltaf möguleiki á dyngjugosi

Það er eitt kennileiti umfram önnur, sem skjálftahrinan hefur verið kennd við.

Í næsta nágrenni skjálftanna hvílir nefnilega hraunskjöldurinn Skjaldbreiður, ein þekkt­asta dyngja Íslands. Hann sést vel frá Þing­völl­um enda 1.060 metra hár. Á toppi hans er mik­ill og djúp­ur gíg­ur, um 300 metr­ar að þver­máli og um 50 metrar að dýpt.

Skjaldbreiður myndaðist fyr­ir um níu þúsund árum í löngu gosi, því sama og myndaði um­gjörð Þing­valla­vatns. 

„Það er erfitt að segja til um hversu stórt eld­gos á þessu svæði yrði. Það er alltaf mögu­leiki á dyngjugosi,“ sagði Þor­vald­ur, spurður hvers kyns gos þarna kynni að verða, ef af því yrði nú.

Dyngjugos í ætt við það sem myndaði Skjaldbreið hefur ekki orðið á Íslandi í árþúsund. Eða ef til vill þangað til fyrir tveimur árum, en allt þykir benda til þess að gos síðustu ára séu vísir að litlu dyngjugosi.

„Mín til­finn­ing er sú að það sem er að ger­ast þarna í Fagra­dalls­fjalli eru fyrstu skref­in í átt að dyngjugosi,“ sagði Þorvaldur.

Þurfa að standa lengi

Dyngjugos leiða oft af sér dyngju­fjöll. En þau þurfa að standa mjög lengi til þess að mynda stór­ar dyngj­ur á borð við Skjald­breið, sem tók um 30-100 ár að mynd­ast.

„Hraun­in sem koma í dyngjugos­in koma af miklu meira dýpi, kannski af tutt­ugu kíló­metra dýpi, á meðan önn­ur gos koma yf­ir­leitt af tíu kíló­metra dýpi. Dyngjugos tengj­ast held­ur ekki beint gliðnun og sprung­um, sem hin gera. Það er kannski grund­vall­armun­ur­inn,“ sagði Sigmundur Einarsson jarðfræðingur í samtali við mbl.is, í aðdraganda eldgossins sem varð í mars 2021.

„Menn kunna svo sem ekki ná­kvæm­ar skýr­ing­ar af hverju þau koma svona ein­staka sinn­um. En meiri­hátt­ar dyngjugos, þau urðu flest fljót­lega eft­ir að ís­öld lauk. Síðan hef­ur verið frek­ar lítið um þau,“ sagði Sigmundur.

„Skjald­breiður er kannski flott­asta dæmið um svo­leiðis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert