Finnur Oddsson forstjóri Haga segir í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann í dag að færa megi rök fyrir því að ódýrara sé að kaupa í matinn á Íslandi en annars staðar í Evrópu.
Spurður af hverju matvara sé dýr á Íslandi spyr Finnur á móti hvort hún sé raunverulega dýr.
„Það er reyndar skiljanlegt að við fáum þessa tilfinningu þegar við förum með okkar íslenska kaupmátt og verslum erlendis, einkum í suðurhluta Evrópu. En samanburðurinn er aðeins villandi, því réttara væri að skoða verðlag í hverju landi í samhengi við heildarútgjöld heimila, ráðstöfunartekjur eða rekstrarkostnað á viðkomandi stað.
Þannig mælt, þá telur matarkarfa heimila á Íslandi um 13% útgjalda, sem er lægra hlutfall af útgjöldum en meðaltal um 30 Evrópulanda, allt frá Noregi til Portúgals, sem er tæplega 16% (m.v. árið 2021). Á síðustu tíu árum hefur þetta hlutfall lækkað á Íslandi en hækkað í nágrannalöndunum. Það má því færa rök fyrir því að það sé í einhverjum skilningi ódýrara fyrir heimafólk að kaupa í matinn hérlendis en á velflestum stöðum í Evrópu, a.m.k. hlutfallslega miðað við útgjöld eða laun,“ segir Finnur.
Í samtalinu ræðir hann einnig verðbólgu. Hann segir matvöru hafa orðið dýrari vegna þess að það varð dýrara að framleiða hana. „Það vandamál mun ekki hverfa með neinum töfrabrögðum.“
Nánari umfjöllun er að finna í ViðskiptaMogganum í dag.