Vill fá eina þyrlu LHG til Akureyrar

Njáll Trausti er með bakgrunn úr fluggeiranum.
Njáll Trausti er með bakgrunn úr fluggeiranum. mbl.is/Ljósmynd

Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, hyggst leggja fram þingsályktunartillögu á Alþingi í haust þess efnis að færa eina þyrlu Landhelgisgæslunnar til Akureyrar.

Þingsályktunartillagan er gerð fyrst og fremst til að sinna Norður- og Austurlandi betur en gert er í dag að sögn Njáls Trausta sem ræddi við mbl.is í kvöld.

„Það hefur flestum verið ljóst að á undanförnum árum hefur þessum landshlutum og hafsvæðunum utan við þau ekki verið nægilega vel sinnt og þá helst vegna þess að viðbragðstíminn er langur vegna fjarlægðar frá suðvesturhorni landsins,“ segir Njáll Trausti.

Viðbragðstíminn styttur

Segir hann að tilraunir í sumar með viðveru þyrlu LHG á Akureyri yfir verslunarmannahelgina og Fiskidagshelgina hafi reynst vel og stytt viðbragðstíma björgunaraðila.

„Um Fiskidagshelgina voru fimm útköll og fram kom að viðbragðstíminn var töluvert styttri heldur en ef flogið væri frá Reykjavík,“ segir Njáll.

Allir helstu innviðir til staðar

Hann segir að allir helstu innviðir séu fyrir hendi á Akureyri og því lítil fyrirhöfn að koma upp nýrri starfstöð. Kosturinn við Akureyri sé til að mynda landfræðileg staðsetning. 

„Hér eru búsettir flugstjórar hjá Gæslunni og einnig eru hér flugvirkjar á flugvellinum sem gætu sinnt viðhaldi á þyrlunni. Sjúkrafluginu með flugvélum fyrir landið hefur einmitt verið sinnt héðan um áratugaskeið. Þannig að með árunum hefur skapast mikil reynsla og þekking hjá þeim sem koma að því og litið til lækna og sjúkraflutningamanna,“ segir Njáll og bætir við:

„Mín trú er að það sé hægt að byggja upp starfsstöð af hálfu Landhelgisgæslunnar þar sem sjúkraflugi, leit og björgun yrði sinnt með öflugum hætti,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert