Ediksgerlu, sem er einnig þekkt sem ávaxta- eða bananafluga, hafa verið skapaðar kjöraðstæður til að verpa og fjölga sér inn á heimilum fólks vegna lífræns úrgangs. Ekki er útilokað að þeim fylgi köngulær og fleiri skordýr.
Þetta segir Gísli Már Gíslason, skordýrafræðingur og prófessor emeritus í vatnalíffræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Fólk hefur margt hvert orðið vart við gríðarlega fjölgun flugna inni á heimilum sínum. Er það tilkomið vegna lífræna úrgangsins sem fólk geymir þar nú vegna nýja flokkunarkerfisins, sem flugurnar sækjast í til að fjölga sér.
Stofuhitinn og úrgangurinn skapa þeim bestu aðstæður til fjölgunar að sögn Gísla.
Spurður hvort fleiri skordýr muni nú „kíkja í heimsókn til fólks“ segir hann það ekki útilokað.
„Jú það gæti vel gerst, sérstaklega yfir sumarmánuðina. Það væru þá aðallega krossköngulærnar sem eru utan á húsunum og þær gætu komið inn, þær eru samt skaðlausar eins og aðrar köngulær á Íslandi,“ segir Gísli og bætir við:
„Það eru líka bjöllur og járnsmiðir sem gætu fylgt. En Íslendingar eru svo þrifnir að það er ekki mikil hætta á þessu.“
En ediksgerla er ekki eina flugutegundin sem sækir í hús fólks.
„Ef það er mikið af öðrum úrgangi eins og kjöti og fiski þá gæti öðrum skordýrum eins og fiskiflugum fjölgað í húsum fólks. Það getur fylgt þessu óþrifnaður og svo fer þetta í matvæli fólks.“
Hann tekur það þó fram að engin raunveruleg hætta stafi af þessum skordýrum.
Gísli segir að ediksgerla komi fyrst inn í hús fólks með aðkeyptum ávöxtum en taki sér svo bólfestu í lífrænum úrgangi fólks.
„Þegar þú ert með mikið af matarleifum í opnum bréfpokum, eins og Reykjavíkurborg býður upp á, þá fara flugurnar beint í það og byrja að fjölga sér. Þær verpa í pokana og eru fljótar að fjölga sér, þó þær geri ekkert af sér.“
Sjálfur veltir hann því fyrir sér hvort að hægt sé að vera með betri hönnun á pokunum svo hægt sé að loka þeim „almennilega“. Hvetur hann fólk til þess að vera með klemmur yfir pokunum og reyna að farga úrganginum oftar.