Hermann Nökkvi Gunnarsson
Alþingi kemur saman á ný í dag eftir sumarleyfi. Hildur Sverrisdóttir, nýkjörinn formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks eftir að Óli Björn Kárason baðst undan áframhaldandi formennsku í gær, kveðst í samtali við Morgunblaðið horfa fram á krefjandi vetur á Alþingi.
„Það er mikill heiður að taka að sér svona þungavigtarhlutverk hérna á þinginu,“ segir hún um þetta nýja hlutskipti sitt.
„Fram undan er krefjandi þingvetur og fyrsta mál á dagskrá er fjárlagafrumvarp Bjarna Benediktssonar þar sem áhersla er lögð á að tempra útgjaldavöxt á verðbólgutímum. Svo eru önnur mál sem þarf að leggjast vel yfir með samtali við aðra flokka.“
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í sumar í kjölfar þess að þungavigtarmenn í flokknum gagnrýndu stöðu flokksins og ríkisstjórnarsamstarfið. Hildur segir þann fund hafa reynst góðan.
„Við áttum góðan vinnufund í síðasta mánuði þar sem við vorum einlæg í því hvernig við lítum á þetta samstarf og við erum einhuga í því að klára það verkefni sem við tókum að okkur. Það skiptir máli að okkar sýn sé þarna við borðið fyrir fólkið í landinu.“
Meira í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.