Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að sennilega hafi bankinn vanmetið lítillega ferðagleðina hingað til lands og kannski að einhverju leiti getu ferðaþjónustunnar til að taka á móti öllu þessu fólki sem flykkst hefur til landsins í sumar.
Jón Bjarki fjallar um myndarlegt ferðþjónustusumar í grein á vef bankans í gær.
„Fjöldatölur sumarsins hafa verið nær spá Greiningar fyrir næsta ár en spánni fyrir 2023. Alls hafa 1,5 milljón erlendra túrista farið um Keflavíkurflugvöll frá áramótum sem er 36% fjölgun milli ára. Stefnir fjöldi ferðamanna um Keflavíkurflugvöll í í 2,2 milljónir á árinu,“ sem segir í grein Jóns Bjarka.
Segir Jón Bjarki í samtali við mbl.is að getan hafi verið endurbyggð ef svo má segja, ekki síst hvað varðar vinnuaflið sem hann segir einnig endurspeglast í nýlegum gögnum um aðflutta umfram brottflutta.
Þar komi í ljós að fólksfjölgun sé hröð og fyrst og fremst þar sem fólki sé að fjölga hér ekki síst til að vinna í bæði ferðaþjónustu og mannvirkjagerð. Jón Bjarki segir að ekki sé ýkja mikill munur á mati Greiningar en að það sé alltaf í þessa áttina.
„Þetta er alltaf einhvers staðar um og yfir 10 þúsund fleiri manns sem koma heldur en við gerum ráð fyrir.“
Hann segir það boða gott fyrir framhaldið og að það verði mjög fróðlegt að sjá hvernig haustið spilast.
„Ferðaþjónustunni hefur orðið vel ágengt í að byggja á háönninni en forvitnilegt verður að sjá hvernig miðannar traffíkin verður inn á haustið og þróun ferðmannafjölda það sem eftir lifir árs.
Ef þessi þróun heldur áfram að það koma jafnvel líka fleiri ferðamenn það sem eftir lifir þess árs en við gerðum ráð fyrir þá erum við að fara að sjá 2,2 milljónir ferðamanna koma hingað í ár um flugvöllinn.“
Segir hann það að sama skapi þýða að gjaldeyristekjurnar verði öllu meiri og horfur vænkist um hagfelldari viðskiptajöfnuð sem aftur skýtur traustari stoðum undir gengi krónunnar.
Jón Bjarki segir nýtingu gistirýma mjög góða og að hann sé heldur bjartsýnni á að það sé þróun sem við sjáum inn í næstu háönn en segir þó að reyndar beri að halda til haga að skorður verði til staðar þegar komið er fram yfir næsta ár vegna þess hve lítið er verið að byggja af nýju gistirými þessa dagana.
Segir hann lítið af verkefnum í hóteluppbyggingu á fyrsta stigi og þannig bætist lítið við af gistirýmum árið 2025.
„Herbergjanýtingin er orðin það góð á hótelum og gististöðum að þá verðum við komin með skorður sem erfitt er að fara upp fyrir þar til bætt verður í taktinn á hóteluppbyggingunni“
Jón Bjarki segir aðdáunarvert fyrir rekstur hótela og gistiheimila hvað nýtingin er góð og það viti á gott en þau þurfi á mjög góðri nýtingu að halda meðal annars vegna hás launakostnaðar miðað við önnur lönd.
„Það er mikilvægt að sjá að herbergjanýtingin er hreint prýðielg og það endurspeglast í tölum hagstofunnar. Verkefni ferðaþjónustunnar er ekki síst nú að ná betri dreifingu yfir árið og yfir landið.
Það er sameiginlegt verkefni ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni, hagsmunasamtaka og samhæfingarstofnana eins og Íslandsstofu og slíkra aðila. Þá þarf það að vera að einhverju leiti á hendi stjórnvalda hvað varðar áherslur í kynningu og þar fram eftir götunum.“