Íslensk stjórnvöld eru skuldbundin því að tryggja fræðslu um kynheilbrigði, mannréttindi og kynjajafnrétti í skólakerfinu, en undir það fellur meðal annars kynfræðsla, fræðsla um hinsegin málefni og fræðsla um fordóma og mismunun.
Þetta segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem ríki, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök sendu frá sér í dag, vegna umræðu sem skapast hefur um hinsegin fræðslu og kynfræðslu.
Í tilkynningunni segir að á Íslandi gildi lög um kynrænt sjálfræði sem kveði á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og tryggi að kynvitund þeirra njóti virðingar.
Þá sé það á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla að vinna markvisst að forvörnum barna og ungmenna, þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri fræðslu sem feli meðal annars í sér víðtæka fræðslu.
Þar kemur einnig fram að öll fræðsla taki tillit til aldurs og þroska barna með farsæld, velferð, heilbrigði og hag þeirra að leiðarljósi.
Í tilkynningunni er gerður greinarmunur á kynfræðslu og hinsegin fræðslu, sem sé tvennt ólíkt.
Kynfræðsla snúist um að efla kynheilbrigði barna á meðan hinsegin fræðsla fjalli um fjölbreytileikann og mikilvægi þess að vinna gegn fordómum.
„Við undirrituð styðjum við góða og vandaða hinsegin fræðslu og kynfræðslu í skólakerfinu,“ segir í lok tilkynningarinnar. Hún er undirrituð af Stjórnarráði Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmanni barna, Menntamálastofnun, Barnaheillum, Samtökunum '78 og Landssamtökum foreldra.
Hægt er að nálgast tilkynninguna í heild sinni á vef Reykjavíkurborgar.