Gefa út sameiginlega yfirlýsingu

Ríki, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök hafa gefið frá sér sameiginlega …
Ríki, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök hafa gefið frá sér sameiginlega yfirlýsingu vegna umræðu um kynfræðslu og hinseginfræðslu. mbl.is/Eyþór

Íslensk stjórnvöld eru skuldbundin því að tryggja fræðslu um kynheilbrigði, mannréttindi og kynjajafnrétti í skólakerfinu, en undir það fellur meðal annars kynfræðsla, fræðsla um hinsegin málefni og fræðsla um fordóma og mismunun.

Þetta segir í sameiginlegri yfirlýsingu sem ríki, sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök sendu frá sér í dag, vegna umræðu sem skapast hefur um hinsegin fræðslu og kynfræðslu.

Forvarnir á ábyrgð sveitarfélaganna

Í tilkynningunni segir að á Íslandi gildi lög um kynrænt sjálfræði sem kveði á um rétt einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt og tryggi að kynvitund þeirra njóti virðingar.

Þá sé það á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla að vinna markvisst að forvörnum barna og ungmenna, þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri fræðslu sem feli meðal annars í sér víðtæka fræðslu.

Þar kemur einnig fram að öll fræðsla taki tillit til aldurs og þroska barna með farsæld, velferð, heilbrigði og hag þeirra að leiðarljósi.

Hinsegin fræðsla og kynfræðsla sé ekki það sama

Í tilkynningunni er gerður greinarmunur á kynfræðslu og hinsegin fræðslu, sem sé tvennt ólíkt.

Kynfræðsla snúist um að efla kynheilbrigði barna á meðan hinsegin fræðsla fjalli um fjölbreytileikann og mikilvægi þess að vinna gegn fordómum. 

„Við undirrituð styðjum við góða og vandaða hinsegin fræðslu og kynfræðslu í skólakerfinu,“ segir í lok tilkynningarinnar. Hún er undirrituð af Stjórnarráði Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Umboðsmanni barna, Menntamálastofnun, Barnaheillum, Samtökunum '78 og Landssamtökum foreldra.

Hægt er að nálgast tilkynninguna í heild sinni á vef Reykjavíkurborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert