Okkur beri skylda til að varðveita íslenskuna

Katrín Jakobsdóttir tekur afstöðu til endanlegra tillagna þegar umræðan hefur …
Katrín Jakobsdóttir tekur afstöðu til endanlegra tillagna þegar umræðan hefur farið fram. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra telur margar af þeim breytingum og tillögum sem lagðar eru fram, um breytingar á stjórnarskránni, eitthvað sem alþingismenn ættu að geta verið sammála um. Breytingar sem voru til umræðu á síðasta kjörtímabili eru ekki til umræðu núna að sögn Katrínar.

Þrem­ur grein­ar­gerðum fjög­urra sér­fræðinga sem Katrín fól að taka sam­an um þá kafla stjórn­ar­skrár­inn­ar sem fjalla um Alþingi, dóm­stóla og mann­rétt­indi hef­ur verið skilað inn til ráðuneyt­is­ins.

Íslensk tunga opinbert mál

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði í þingsetningarræðu sinni á þriðjudag að í stjórnarskrá mætti vera kveðið á um að íslenska væri þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál hér á landi.

Aðspurð segist Katrín hafa lagt það til í síðasta frumvarpi en þá hafi hún fengið gagnrýni á að í því fælist aðgreining.

„En það breytir því ekki að mínu viti, að okkur ber mikil skylda til að varðveita íslenska tungu. Ekki bara gagnvart okkur sjálfum, heldur líka gagnvart heiminum“.

Kosningar og kjördæmaskipan

Katrín segir einn kafla ekki hafa verið tekinn til sérstakrar skoðunar að þessu sinni, þegar hún er spurð hvort búast megi við frekari breytingu. Um er að ræða kaflann um kosningar og kjördæmaskipan, sem hún segist sjá fyrir sér að ræða á vettvangi formanna.

„Af því að við vitum í raun og veru alveg um þau sjónarmið sem þar mætast. Annars vegar um jafnt vægi atkvæðanna og hins vegar tengslin við kjördæmin. Þar sem við erum annars vegar með sjónarmið um sem jafnast vægi atkvæða og hins vegar mikilvægi þess að þingmenn séu í tengslum við kjósendur á sínu svæði. Þar erum við auðvitað með mjög ólíkar pólitískar skoðanir og spurningin er því hvort við náum einhverri lendingu þar.“

Lengi verið deilt um auðlindarákvæðið

Þá segir hún önnur mál ekki til umræðu í þessum greinargerðum eins og framsal valdheimilda, sem töluvert mikið var rætt um á síðasta kjörtímabili en ekki náist samstaða um. Katrín bindur þó vonir við að samstaða náist að þessu sinni, enda telur hún að mikið af þeim breytingum og tillögum sem nú eru undir, séu eitthvað sem þingmenn ættu að geta verið sammála um.

Spurð hvort hún telji auðlinda- og umhverfismál jafnframt eitthvað sem samstaða gæti náðst um segir Katrín:

„Við erum búin að vera að deila um auðlinda ákvæði stjórnarskrárinnar frá sjöunda áratugi tuttugustu aldarinnar, eða í um fimmtíu ár, þannig að þetta er dálítið gamalt og gott deilumál.“

Tillaga stjórnlagaráðs

Hún segir núverandi tillögu þó hvorki sína tillögu, tillögu Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra, eða nokkurs annars.

„Þetta er tillaga stjórnlagaráðs. Hún er mjög einföld og það sem þau eru að reyna að gera er að fanga með sínum hætti þá umræðu sem hefur átt sér stað í þessum áætlunum, á þessum árum og áratugum, inn í mjög einfalt ákvæði. Ég er mjög spennt fyrir að fylgjast með umræðunni um það.

Eins með umhverfisverndarákvæðið, það er einfaldara en það ákvæði sem ég lagði fram og stjórnlagaráð rökstyður hvers vegna ákveðnir þættir eru teknir úr fyrra ákvæði,“ segir Katrín sem fannst skynsamlegt að setja tillögurnar út til umræðu. Leyfa umræðunni að gerjast og gefa stjórnmálafólki úr ólíkum flokkum tíma til þess að taka afstöðu, áður en tekin er endanleg ákvörðun.

„Ég ætla að geyma mér það að taka afstöðu til endanlegra tillagna, þangað til umræðan hefur farið fram og við náum þessu samtali.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert