Fundargerðir ekki birtar í þrjá mánuði

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir stjórnina hafa fundað þrisvar sinnum án þess …
Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir stjórnina hafa fundað þrisvar sinnum án þess að fundargerð sé birt. mbl.is/Ari

Fundargerðir vegna stjórnarfunda Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hafa ekki verið birtar í þrjá mánuði. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks telur það ámælisvert og óskaði hann eftir skýringum á þessu á fundi borgarráðs á fimmtudaginn.

Fyrirspurninni var í kjölfarið vísað til umsagnar Orkuveitunnar. Síðast var fundargerð stjórnar OR lögð fyrir borgarráð þann 8. júní en í fyrirspurn Kjartans kemur fram að stjórn félagsins hafi fundað að minnsta kosti þrisvar sinnum síðan í maí.

„Skýrt brot“ gegn samþykkt OR

„Í febrúar 2008 samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að fundargerðir stjórnar félagsins yrðu gerðar opinberar og birtar á heimasíðu fyrirtækisins. Hefur því verklagi verið fylgt síðan og er þannig löng hefð fyrir því að fundargerðir stjórnar Orkuveitunnar séu gerðar opinberar, birtar á heimasíðu félagsins og jafnframt lagðar fram í borgarráði Reykjavíkur,“ segir í fyrirspurn borgarfulltrúans.

Spurningar hans, sem hefur verið vísað til umsagnar OR, hljóða svo:

  1. Af hverju hefur verið brotið gegn skýrri samþykkt stjórnar Orkuveitunnar um að fundargerðir hennar skuli birtar sem og gegn ákvæði í eigendastefnu um að OR skuli vera til fyrirmyndar um upplýsingagjöf til almennings?
  2. Hver ber ábyrgð á þessari ákvörðun?
  3. Hefur stjórn Orkuveitunnar tekið einhverjar ákvarðanir undanfarna þrjá mánuði, sem ekki er talið æskilegt að almenningur, borgarfulltrúar og fjölmiðlar fái vitneskju um?
  4. Óskað er eftir því að bætt verði úr þessari upplýsingatregðu með því að umræddar fundargerðir verði tafarlaust lagðar fyrir borgarráð og þær jafnframt birtar á heimasíðu Orkuveitunnar eins og löng hefð er fyrir.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert