Eftirlýstur glæpamaður dæmdur í farbann

Landsréttur hefur gert manninum að sæta farbanni til 16. október.
Landsréttur hefur gert manninum að sæta farbanni til 16. október. mbl.is/Jón Pétur

Landsréttur hefur gert rúmenskum manni að sæta farbanni þangað til 16. október, en maðurinn hefur verið eftirlýstur í heimalandinu frá því hann sakfelldur fyrir þjófnað sem hann framdi árið 2015.  

Fram kemur í dómi Landsréttar að maðurinn hafi komið til Íslands í september 2018, en til stóð að hann hefði tveggja ára afplánun í Rúmeníu í júlí sama ár.  

Evrópsk handtökuskipun gefin út

Gefin var út evrópsk handtökuskipun á hendur manninum 23. júlí 2021 þar sem óskað var eftir handtöku á hinum eftirlýsta sem er rúmenskur ríkisborgari, til fullnustu fangelsisrefsingu.

Lögregla hafði uppi á manninum 22. júní síðastliðinn og var í kjölfarið haft samband við evrópska dómstóla.  

Gekk undir mörgum nöfnum

„Í málinu liggja fyrir gögn um að lögreglu gekk erfiðlega að finna varnaraðila og dvaldi hann hvorki á núverandi né fyrrverandi lögheimili sínu,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. september. 

„Þá benda gögn málsins til þess að hann hafi ítrekað flutt meðan hann hefur dvalist hér á landi. Einnig kemur fram í gögnum málsins að varnaraðili hafi stundum gengið undir nafninu Y.

Með hliðsjón af öllu þessu er fallist á það með sóknaraðila að hætta sé á að varnaraðili muni reyna að komast úr landi, leynast eða koma sér með öðrum hætti undan fullnustu þeirrar refsingar sem bíður hans í Rúmeníu og skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu þannig uppfyllt.

Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur í Landsrétti 

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði manninn í gæsluvarðhald til 16. október.

Málið var síðan tekið fyrir í Landsrétti miðvikudaginn 20. september þar sem gæsluvarðsúrskurðurinn var felldur úr gildi og manninum þess í stað gert að sæta farbanni þangað til 16. október.

Til stendur að framselja manninn til Rúmeníu þar sem hann mun afplána fangelsisvist. 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert