Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir nauðsynlegt að staldra við þegar forsendur eru brostnar miðað við upphaflegar áætlanir. Hún telur nálgun fjármála- og efnahagsráðherra, á samgöngusáttmálann, skynsamlega og vill að stofnvegaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu verði í forgangi.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segist þeirrar skoðunar að bíða þurfi með framkvæmdir að andvirði 100 milljarða króna a.m.k. á höfuðborgarsvæðinu úr samgöngusáttmálanum. Þá telur hann jafnframt nær lagi að horfa til skemmri tíma í senn. Tjáði hann sig um þessi málefni í gær á fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðismanna í Reykjavík.
Samgöngusáttmálinn er samningur sem kynntur var árið 2019 og felur í sér sameiginlega framtíðarsýn og heildarhugsun fyrir höfuðborgarsvæðið. Miðað við upphaflegar áætlanir var ráðgert að leggja mest fjármagn í stofnvegi höfuðborgarsvæðisins.
Þar á eftir komu innviðir borgarlínu og almenningssamgöngur, svo göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng, auk þess sem bæta á umferðarstýringu og sérstækar öryggisaðgerðir.
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, tekur undir nálgun Bjarna og segir hana skynsamlega.
„Það blasir við að þegar forsendur eru brostnar miðað við upphaflegar áætlanir og samgöngusáttmáli fer úr því að vera 160 milljarðar í 300 milljarða, þá þurfum við auðvita að staldra við. Við getum ekki bara haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.“
Hún segir jafnframt skynsamlegt að búta áætlunina niður og vega og meta framhaldið hverju sinni. Í því samhengi vill Ásdís að lögð verði áhersla á stofnvegina og að þær framkvæmdir verði í forngangi sem liðka fyrir umferð.
„Síðasta áratug hefur verið algjört frost í stofnvegaframkvæmdum sem snúa að höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásdís sem vonast til þess að við getum farið að sjá einhvern árangur á næstu árum, ef skynsamleg lending næst hvað varðar samgöngusáttmálann.
„Ég fagna því að það sé verið að horfa á þetta með þessum áherslum,“ segir Ásdís enda ekki hægt að gera ekki neitt lengur.