Konan sem úrskurðuð var í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær er íslensk. Sætir hún gæsluvarðhaldi í tengslum við rannsókn lögreglunnar á andláti karlmanns á sextugsaldri. Karlmaðurinn var einnig íslenskur.
Þetta staðfestir Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Ævar segir lögreglu ekki geta tjáð sig frekar um málið.
Konan var handtekin á vettvangi um helgina en andlát mannsins varð í fjölbýlishúsi í austurborginni.
Tilkynning um málið barst lögreglu á laugardagskvöld og hélt hún þegar á staðinn og hóf þar endurlífgunartilraunir á manninum. Hann var í framhaldinu fluttur á Landspítalann, en var úrskurðaður þar látinn.
Rannsókn málsins miðar vel áfram að sögn Ævars og að beðið sé eftir niðurstöðum úr rannsóknum.