Erfitt yrði að takmarka hraða

Ómögulegt yrði að koma fyrir búnaði sem takmarkar hraða í …
Ómögulegt yrði að koma fyrir búnaði sem takmarkar hraða í nýjum bifreiðum að mati sérfræðinga Samgöngustofu. mbl.is/Eggert

Nær ómögulegt er að koma í veg fyrir hraðakstur einkabíla með því að koma búnaði fyrir í þeim sem setur mörk um hversu hratt þeir geta farið. Þetta er mat sérfræðinga hjá Samgöngustofu.

Rútur og vöruflutningabifreiðar eru búnar slíkum tækjum og sömuleiðis eru rafhlaupahjól.

Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir sérfræðinga á einu máli um að eftir því sem bifreiðar verði tæknilegri og með flóknari hugbúnaði sé síður hægt að innleiða slíka tækni.

„Það væri tæknilega séð hægt að koma slíkum búnaði fyrir í eldri kynslóðum bíla, en ekki í þessum nýjustu. Og með eldri bílana, þá væri mjög erfitt að innsigla slíkan búnað,“ segir Þórhildur í samtali við mbl.is.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa (RSNA) birti nýverið skýrslu um banaslys er varð á Suðurlandsvegi á síðasta ári. Niðurstaðan var að ökumaður Volvo-bifreiðar hefði ekið töluvert yfir hámarkshraða og tekið fram úr röð bifreiða án þess að ganga úr skugga um að það væri öruggt. Ók hann framan á Toyota-jeppa á vinstri akrein. Slasaðist ökumaður jeppans alvarlega og lést hálfum mánuði síðar.

Ekki umræðunni af alvöru

Þórhildur segir að ekki sé alvöru umræða um að taka upp einhverja opinbera hraðatakmörkun í bíla. Það sé í raun ómögulegt að gera slíkt nema ef löggjöf þess efnis yrði sett. Ómögulegt væri að setja slík lög aðeins á Íslandi heldur þyrfti hún að koma frá Evrópu, líkt og með rútur og vöruflutningabifreiðar.

„Þetta er ekki eitthvað sem er hægt að bæta við bíla. Þá þyrftu framleiðendur að vera skikkaðir í eitthvað svoleiðis. Það er erfitt að sjá fyrir sér að slíkri ákvörðun inni fagnað,“ segir Þórhildur og bendir á að hraðatakmarkanir á vegum séu ekki einu sinni þær sömu milli ríkja Evrópu.

Eðli málsins samkvæmt tæki þá mörg ár, jafnvel áratugi að innleiða eitthvað slíkt í löggjöfinni.

Skikka þyrfti framleiðendur bifreiða að innleiða slíkan búnað og segist …
Skikka þyrfti framleiðendur bifreiða að innleiða slíkan búnað og segist Þórhildur ekki geta ímyndað sér að slíku yrði fagnað. mbl.is/Árni Sæberg

Óskandi að hægt sé að koma í veg fyrir slys

Hugbúnaðartækni bifreiða hefur fleytt fram á síðasta ári og nefnir Þórhildur að í nýjum bílum sé „cruise control“ sem ökumenn geta nýtt sér við akstur. Það sé þó auðvitað eitthvað sem ökumaður hverrar bifreiðar þarf að ákveða að nota og getur stillt eftir sínum þörfum. Þá er líka í nýrri bifreiðum tölvur sem styðjast við gögn um vegakerfið og getur ökumaður því vitað hverju sinni hver hámarkshraði á veginum er.

Í ljósi skýrslu RSNA sagði Þórhildur að auðvitað væri óskandi að hægt væri að koma í veg fyrir svona slys með því að setja einhvers konar takmörk á hversu hratt er hægt að aka. Það sé þó ekki raunhæfur möguleiki og því sé okkar besta leið til að varna að slík slys verði að kenna strax í ökunámi að hraðakstur sé hættulegur.

„Aðalslysaorsökin er auðvitað hraði,“ segir Þórhildur. „Það sem við höfum verið að gera til að varna hraðakstri er að breyta hegðun fólks. Þannig hefur ökunámið verið víkkað út. Í Ökuskóla 1, 2 og 3 er farið mjög vandlega yfir þetta,“ segir Þórhildur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert