Keldnaland á að skapa tekjur fyrir sáttmálann

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær ásamt …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær ásamt Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra Reykjavíkurborgar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er hægt að fullyrða um það í dag hvenær Keldnaland verður tilbúið. Þetta sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í gær eftir að hafa greint frá vinningstillögunni í alþjóðlegri samkeppni um þróun íbúðasvæðisins.

„Við erum í miðju kafi við að ræða uppfærslu á samgöngusáttmálanum. Þar eru tímalínur aðeins að færast til, að öllum líkindum, en Keldnalandið á að skapa tekjur fyrir samgöngusáttmálann. Þetta hangir saman. Eftir því sem við fáum borgarlínuna fyrr upp í Ártúnsholt og síðan upp á Keldur þeim mun fyrr getur hverfið orðið til og farið að skila tekjum fyrir öll hin samgönguverkefnin sem eru hluti af pakkanum,” svaraði Dagur aðspurður.

Gert er ráð fyrir því að borgarlínan verði farin að þjóna í hverfinu um leið og fólk flytur inn í fyrstu íbúðirnar. Þannig verður strax til staðar frábær þjónusta almenningssamgangna, að sögn Dags.

„Það þýðir líka að hverfið þarf að byggjast býsna hratt upp.”

Þriggja til fimm hæða hús

Inntur eftir því hvers konar hús verða á svæðinu sagði hann húsagerðirnar fjölbreyttar. Miðað við útfærslu vinningstillögunnar núna verði húsin í mesta lagi þriggja til fimm hæða en hugsanlega aðeins hærri á stöku stað í kringum borgarlínustöðvarnar. Byggðin lagi sig að landinu og ætti að tryggja að fólk geti notið birtu og sólarljóss.

MYND/FOJAB

Fyrsta kolefnishlutlausa hverfið

Sænska arkitektastofan FOJAB bar sigur úr býtum í samkeppninni með töluverðum yfirburðum, miðað við stigin sem gefin voru þeim fimm hönnunartillögum sem komust í seinni umferð keppninnar. Dagur, sem er formaður nefndar um þróun Keldnalands, segir sigurtillöguna hafa vaxið gríðarlega við umræður og meiri kynni. Til að fullvissa sig um að hlutirnir gangi upp þurfi að bora sig ansi djúpt ofan í skipulagshugmyndir.

Mynd/FOJAB

„Þarna erum við með þá sýn að vera með fyrsta kolefnishlutlausa hverfið og þar þarf mjög margt að vera rétt og vel gert. Í heildina þá skaraði þessi tillaga fram úr sem sannfærandi og sterk á alla enda og kanta. En það voru ákveðnir hlutar af öðrum tillögum sem við lyftum aðeins. Það er engin tillaga fullkomin þannig að við munum halda áfram samtalinu og þróa það á grundvelli þessarar vinningstillögu,” greindi hann frá.

Er raunhæft að hverfið verði kolefnishlutlaust?

„Það er eðlilegt að fólk spyrji sig því við höfum ekki verið að vinna þannig áður. Þá þarf allt að haldast í hendur, bæði ný hugsun byggingaraðila varðandi byggingarefnin og einnig er okkar ábyrgð mjög mikil út frá skipulaginu sjálfu og hversu aðgengilegar grænar samgöngur verða, hvort heldur gangandi, hjólandi eða borgarlína. Það þarf að hugsa þetta alveg frá upphafi og alveg út í gegn,” sagði borgarstjórinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert