Samningar hafa náðst í kjaradeilu hljóðfæraleikara Sinfóníuhljómsveitar Íslands og ríkisins. Skrifað var undir samninga hjá ríkissáttasemjara fyrr í kvöld.
Menningar- og viðskiptaráðuneytið lagði til að Sinfóníuhljómsveit Íslands fengi viðbótarfjárveitingar sem nema 15 milljónum króna árið 2023 og 45 milljónir króna árið 2024 til að ráða við launahækkanir og að tryggja rekstrargrundvöll sveitarinnar og efla vinnustaðamenningu.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
„Rekstur Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) hefur verið erfiður undanfarin ár, einkum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru sem olli samdrætti í tónleikahaldi hljómsveitarinnar.
Starfsmannafélag SÍ (SMFSÍ) vísaði kjaradeilu sinni við samninganefnd ríkisins til ríkissáttasemjara í júní síðastliðnum. Ríkissáttasemjari og samninganefndin lögðu ríka áherslu á aðkomu ráðuneytis menningarmála til lausnar deilunni,“ segir í tilkynningunni.
Í byrjun september samþykktu hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitar Íslands að boða til verkfalls og var fyrsta vinnustöðvunin fyrirhuguð á morgun. Nú kemur ekki til þess.
„Sinfóníuhljómsveit Íslands gegnir lykilhlutverki í íslensku tónlistarlífi. Það er því afar ánægjulegt að búið sé að semja. Verkfall hefði getað haft verulega neikvæð áhrif á menningarlífið í landinu,“ er haft eftir Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, í tilkynningunni.