Sagt upp með allt að 34 ára starfsreynslu

Kjaraviðræður Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, sótti fundi í …
Kjaraviðræður Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður stéttarfélagsins Eflingar, sótti fundi í Hveragerði í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir mikinn baráttuhug vera meðal þeirra sem sagt var upp störfum á Dvalarheimilinu Ási og í þvottahúsi Grundarheimilanna í Hveragerði.

Sólveig Anna var viðstödd fund stjórnenda Grundarheimilanna í dag og fund þar sem starfsfólkinu var tilkynnt um uppsagnirnar. 

„Mín upplifun var sú að fólkið sem verið er að segja upp, sem eru mest megnis konur, margar hverjar með mjög langan starfsaldur, er misboðið. Þeim er mjög brugðið og skilja ekki hvers vegna í ósköpunum er verið að reka þau. Þetta er fólk sem hefur unnið lengi af samviskusemi og hollustu fyrir þessa stofnun. En það er líka mikill hugur og baráttuvilji,“ segir Sólveig Anna í samtali við mbl.is. 

Sólveig Anna nefnir að sú sem er með mesta starfsaldurinn hafi unnið fyrir stofnunina í 34 ár, en margar aðrar hafa unnið í 20 til 30 ár. 

Sólveig Anna heimsótti starfsfólkið sem sagt var upp í Hveragerði …
Sólveig Anna heimsótti starfsfólkið sem sagt var upp í Hveragerði í dag. Ljósmynd/Efling

Gera allt sem í þeirra valdi stendur

„Ég og þau ætlum að gera það sem í okkar valdi stendur til að fá stjórn Grundarheimilanna til að hætta við þessar ömurlegu, óafsakanlegu og óréttmætu uppsagnir,“ segir Sólveig Anna. 

Spurð hvort uppsagnirnar séu ekki sérlega blóðugar í ljósi þess að í gær hafi verið kynnt skýrsla um kjör fólks sem vinnur við ræstingastörf segir Sólveig Anna jú, það hafi einmitt verið rætt á fundinum. 

Uppsagnirnar eru gerðar, að sögn stjórnenda, til að spara fjármagn. Útvista á störfunum til fyrirtækis sem sérhæfir sig í hreingerningum. Í skýrslu Vörðu, sem greint var frá í gær og fjallað um í Morgunblaðinu í dag, kom einmitt fram að starfsfólk sem vinnur við ræstingar hjá slíkum fyrirtækjum njóti ekki sömu kjara. Það sé líklegra til að vera óánægðara í starfi og upplifa sig ekki sem hluta af vinnustaðnum. 

Sólveig Anna segir baráttuhug í hópnum.
Sólveig Anna segir baráttuhug í hópnum. Ljósmynd/Efling

Sinna fleiru en ræstingum

Sólveig Anna bendir á að það fólk sem starfar á Grundarheimilunum sinni mun stærra starfi en að þrífa og að það eigi í miklum samskiptum við vistmenn þar. Segist hún geta fullyrt að vistmenn á heimilinu verði ekki ánægðir með uppsagnirnar. Telur hún víst að fjölskyldur vistmanna verði ekki heldur ánægðar með breytingarnar.

Hún segir fátt hafa verið um svör þegar stjórnendur hafi verið spurðir að því í hverju sparnaðurinn fælist í. 

„Að segja þarna upp risastórum hópi, mest megnis konum, til þess að fara svo og ráða aðrar konur til að sinna þessum störfum bara á lakari kjörum? Með verri laun, verri réttindi. Og svo þegar maður skoðar niðurstöðu könnunar Vörðu, líklegri til að verða fyrir misbeitingu, launaþjófnaði og svo fram vegis,“ segir Sólveig Anna.

Sólveig Anna mun funda aftur með stjórnendum Grundarheimilanna á morgun. Þá mun Efling funda með þeim starfsmönnum sem sagt var upp í Hveragerði á þriðjudag í næstu viku. 

Ljósmynd/Efling
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert