Réttað verður í stærstu stóðrétt landsins, Laufskálarétt í Hjaltadal í Skagafirði, á morgun, laugardag. Hundruð hrossa verða í réttinni en hún laðar jafnan til sín þúsundir gesta. Mikið er um dýrðir þetta árið, bæði í aðdraganda smölunar og réttarstarfa og að þeim loknum.
Í tilkynningu frá fjallskilanefnd kemur fram að öllum sé heimilt að taka þátt í stóðrekstrinum en knöpum er bent á að leggja af stað frá áningarhólfi hestamanna við Sleitustaði og frá Laufskálarétt, ekki seinna en kl. 10 í fyrramálið. Rekstrarstörf munu hefjast um hálftólf frá afréttarhliðinu við Unastaði í Kolbeinsdal. Réttarstörf í Laufskálarétt eiga svo að hefjast um kl. 13 á morgun.
Ólafur Sigurgeirsson á Kálfsstöðum er stóðrekstrarstjóri en Bergur Gunnarsson á Narfastöðum hefur yfirumsjón með réttarstörfum.
Hátíðarhöldin hefjast strax upp úr hádegi í dag. Hesthús á þremur bæjum í Skagafirði verða þá opin almenningi fram á kvöld. Þetta eru Neðri-Ás í Hjaltadal, Hrímnishöll á Varmalæk og Varmaland í Sæmundarhlíð. Hrímnishöllin verður einnig opin á morgun frá kl. 14-18.
Árleg sýning og skemmtun verður í kvöld í Reiðhöllinni Svaðastöðum á Sauðárkróki. Þar sýna helstu knapar héraðsins rjómann af hrossaræktun sinni og bregða á leik.
Ýmislegt fleira verður til skemmtunar í héraðinu. Hótel Varmahlíð er með dagskrá og dýrindis veitingar í kvöld og annað kvöld. Danssveit Dósa er með sveitaball í Félagsheimilinu í Hegranesi í kvöld, „alvöru flöskuball“ eins og segir í samantekt héraðsfréttablaðsins Feykis. Kaffi Krókur er með opið frá hálftólf í dag og á morgun og Rúnar Eff er með kúrekastemningu í kvöld.
Sjálft Laufskálaréttarballið verður annað kvöld í Reiðhöllinni Svaðastöðum þar sem landskunnir tónlistarmenn stíga á svið. Einnig er dansleikur í Höfðaborg á Hofsósi og kótilettuveisla.