Vangaveltur um nauðsyn þess að fjölmiðlar greini frá röngum upplýsingum þegar fréttaflutningur er leiðréttur og mikilvægi þess að kenna bæði ungum og öldnum fjölmiðlalæsi, er meðal þess sem Liz Corbin, yfirmaður fréttamála hjá EBU, fjallaði um á Útvarpsþingi Ríkisútvarpsins í vikunni.
Yfirskrift þingsins var Rúv í samfélaginu og var umræðuefnið fjölmiðlun í almannaþágu, samfélag og lýðræðisþróun.
Á þinginu skapaðist meðal annars umræða um rangar upplýsingar í fréttum fjölmiðla. Meðal þess sem deilt var um var hvort nauðsynlegt væri að greina frá því sem rangt er farið með, samhliða því að fréttin sé leiðrétt.
Aðspurð segir Corbin erfitt að meta hvað sé rétt og rangt í þessum efnum. Þrátt fyrir það segir hún það geta verið áhrifameira að fjalla einungis um staðreyndir málsins, í stað þess að tilgreina að um leiðréttingu sé að ræða. Segir hún það vera vegna þess að þeir sem lesa leiðréttinguna, lásu ekki endilega fyrstu fréttina. Á sama tíma og þeir sem lásu fyrstu fréttina, lesa ekki endilega leiðréttinguna.
„Þess vegna getur verið betra að fjalla einungis um staðreyndir málsins en ekki villuna,“ segir hún en bætir við að það sé nauðsynlegt að halda síðan áfram að segja frá hinu rétta til að fólk skilji merg málsins.
Corbin segir mjög mikilvægt að fjölmiðlar reyni að ná snemma til ungs fólks. „Áður var það þannig að fréttir voru einungis sagðar í útvarpi og sjónvarpi. Þá hlustaði fólk síður þegar það var yngra en fór síðan að fylgjast betur með eftir því sem það varð eldra. Það er ekki lengur þannig“ segir hún.
Telurðu mikilvægt að kenna fjölmiðlalæsi?
„Algjörlega, fjölmiðlalæsi er mjög mikilvægt. Ég held að við séum samt enn að reyna að átta okkur á því hvers það er að kenna fjölmiðlalæsi, hvort það sé skólanna, fjölmiðla eða annarra. En til þess að geta tekið þátt í samfélaginu, þá þarf fólk að geta notað fréttamiðla og áttað sig á því hvernig á að forðast rangar upplýsingar.“
Corbin leggur þó áherslu á að það sé einnig nauðsynlegt að kenna eldra fólki fjölmiðlalæsi og tekur sem dæmi þær kynslóðir sem ekki ólust upp við samfélagsmiðla.
„Það eru margir sem myndu segja að sá hópur væri viðkvæmari fyrir röngum upplýsingum heldur en yngra fólk. Þannig að þetta á ekki einungis við um börnin, þetta á við um alla. Á meðan tæknin breytist þá verðum við að hjálpa fólki að vaxa með henni,“ segir hún.