Sólveig kom að skelfilegu rafhlaupahjólaslysi

Sólveg Arnarsdóttir leikkona kom að ungri konu sem var meðvitundarlaus …
Sólveg Arnarsdóttir leikkona kom að ungri konu sem var meðvitundarlaus eftir að hafa fallið af rafhlaupahjóli. Samsett mynd

„Ég var að hjóla heim úr vinnunni og sé þá að rafhlaupahjól liggur þvert yfir stíginn, þannig ég hægi á mér og sé að þar liggur ung kona, um tvítugt eða yngri jafnvel. Liggur á grúfu og ég sé strax að hún liggur í svona ankannalegri stellingu og ég sé að það er blóð. Ég hélt satt best að segja að hún væri látin og það var mesta áfallið.“

Þetta segir Sólveg Arnarsdóttir leikkona í samtali við mbl.is en hún biðlar til stjórnvalda að herða reglur er varða rafmagnshlaupahjól eftir að hún kom að ungri konu sem hafði fallið af rafhlaupahjóli sem hún var með á leigu í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags. 

„Maður hlýtur að spyrja sig, hvaða hagsmunir vega þyngra? Öruggi borgaranna eða gróði einhverja fyrirtækja.

Var meðvitundarlaus allan tímann

Sólveig segir að hún hafi hringt í neyðarlínuna um leið og kveðst þakklát fyrir þann sem hún ræddi við hjá neyðarlínunni sem leiðbeindi henni afar vel. 

„Ég hef sem betur fer farið á skyndihjálparnámskeið þannig ég vissi svona sirka hvað ég ætti að gera. Fyrst fann ég engin lífsmörk en síðan var ég beðin um að snúa henni við og þá korraði í henni. Það var andadráttur og þá þurfti ekki að hefja endurlífgun.“

Sólveig segir að konan hafi verið meðvitundarlaus allan þann tíma sem hún var hjá henni og á meðan sjúkraliðar hlúðu að henni og komu henni í sjúkrabíl. Hún tekur einnig fram að frá því að hún sá konuna og þangað til hún var komin í sjúkrabíl, sem var um það bil hálftími, hafi engin átt leið um hjólastíginn þar sem slysið varð. Hefði því getað farið verr ef Sólveig hefði ekki átt leið hjá þar um nóttina.

Enginn átti leið hjá

Sólveig kveðst vera í áfalli eftir að hafa komið að slysinu en tekur þó fram að hún hafi mestar áhyggjur af líðan konunnar en segist ekki vita um afdrif hennar eftir að hún fór í sjúkrabílinn. Hún vonast innilega að allt hafi farið á besta veg.

„Lögreglan endaði á því að keyra mig heim með hjólið. Ég var svo skekin að ég treysti mér ekki alveg til að hjóla. Það var kalt þessa nótt og hún lá með andlitið á malbikinu. Þennan tíma var enginn, hvorki hjólandi né gangandi, sem átti leið þarna hjá.“

Biðlar til stjórnvalda að herða reglur

Sólveig segir mikilvægast að benda á að fólk getur stórslasast við það að falla af rafhlaupahjólum og biðlar til stjórnvalda að herða reglur er varða notkunartíma rafhlaupahjóla. Að sínu mati væri best að loka fyrir rafhlaupahjólin frá klukkan ellefu á kvöldin til klukkan sex á morgnanna.

„Í mörgum borgum í Evrópu er búið að banna þetta alveg. París er til dæmis búin að banna þetta alveg. Mjög víða er þeim lokað á næturnar. Að banna þau alveg þyrfti alls ekki að gerast en mér finnst alveg hægt að velta fyrir sér að loka fyrir þetta á næturnar og sérstaklega um helgar. Ég vil þó taka fram að ég fann enga lykt af þessari stúlku. Ég held ekki að hún hafi verið drukkin. Ég held hún hafi bara misst stjórn á hjólinu.“

Hún ítrekar mikilvægi þess að svona slys endurtaki sig ekki og bendir á að lögreglan hafi tjáð henni að um hverja helgi eigi fjöldi slysa sér stað. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert