Samfylkingin ber höfuð og herðar yfir aðra flokka í nýjustu könnun Gallup og mælist með 30,1% fylgi. Er þetta fyrsta Gallup-könnunin í fjórtán ár þar sem flokkurinn mælist með yfir 30% fylgi. Ríkisútvarpið greinir frá.
Í könnuninni sjást greinilega að tveir turnar hafa myndast. Einn á vinstri-ás og einn á hægri-ás en Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20,4% fylgi, sem er um fjórum prósentustigum minna en flokkurinn hlaut í kosningum árið 2021.
Enginn annar flokkur mælist með yfir 10 prósentustiga fylgi en Píratar mælast með 9,6%, Miðflokkurinn 8,6% og Framsókn og Viðreisn með um 8% fylgi.
Flokkur fólksins og Vinstri-grænir mælast hvor um sig með 5,7% fylgi.
Fylgi Vinstri-grænna og Framsóknar hefur helmingast frá kosningunum árið 2021, ef marka má könnunina. Á sama tíma hefur fylgi Miðflokksins aukist verulega en flokkurinn hlaut 5,5% í síðustu kosningum.
Sósíalistar myndu sem fyrr ekki ná manni á þing en þeir mælast með 3,9% fylgi.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist um 35%.