Ekki tímabært að segja hvað gerist næst

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er ánægður með að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að hækka ekki stýrivexti í 15. skipti í röð. 

Spurður út í ákvörðun Seðlabankans segir Bjarni:

„Það er ánægjulegt að Seðlabankinn sjái ekki ástæðu að þessu sinni til að hækka vextina eftir allar þær hækkanir sem á undan komu. Það ber hins vegar að veita því athygli að bankinn slær ákveðinn varnagla eftir þessa ákvörðun að það þurfi að fylgjast mjög vel með framvindunni og þróunin framundan getur kallað á enn frekari inngrip,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is.

Þú nefnir þennan varnagla sem bankinn sló í með röksemdum sínum í gær. Áttu frekar von á því að vonir okkar allra rætist og að toppnum sé náð?

„Það er bara ekki tímabært að segja hvað gerist næst. Það ræðst af því hvernig framvinda mála verður. Það sem við hins vegar tökum eftir er að það eru merki um að það sé að draga úr umsvifum og að einkaneyslan sé að skreppa saman. Við vitum að fasteignarmarkaðurinn hefur lækkað að raunvirði undanfarið ár þannig að margt að því sem við höfum verið að glíma við er ekki lengur sama vandamálið. Það er hins vegar þannig að það er töluverð mikil umsvif í hagkerfinu og svo eru lausir kjarasamningar eftir nokkra mánuði. Nú liggja fjárlögin fyrir og okkar helstu áætlanir eru ekki að valda bankanum vandræðum á þessum tímapunkti,“ segir Bjarni.

Að ná verðbólgunni niður er langstærsta hagsmunamálið

Bjarni segir að Íslendingar séu ekki þeir einu sem hafa verið að kljást við verðbólgu.

 „Það er hægt að hafa áhrif á framvinduna. Til þess getum við beitt vaxtatækinu sem Seðlabankinn er að gera, við getum beitt opinberum fjármálum sem eru öll að þróast í rétta átt og það skiptir máli á vinnumarkaði að það skapist sátt um að launahækkanir séu í takti við þá framleiðaaukningu sem er að verða í landinu. Ef við högum okkur þó ekki nema í samræmi við þetta þá er engin ástæða til að ætla annað en að verðbólgan komi niður. Það er langstærsta hagsmunamálið fyrir alla, heimilin, atvinnustarfsemina og rekstur hins opinbera,“ segir Bjarni.

Katrín Ólafsdóttir, dósent í hagfræði við Háskólann i Reykjavík, nefndi í spjalli við mbl.is að hún væri dálítið vonsvikin með stuðning ríkisstjórnarinnar við aðgerðir Seðlabankans og rökstuddi það með þeim hætti að hún hefði viljað sjá fremur en kannski aukið aðhald skattahækkanir og nefndi til dæmis auðlindagjald. 

„Það er enginn sterkari mælikvarði á framlag ríkisfjármálanna heldur en afkomubatinn. Við höfum verið að setja algjört met í afkomubata undanfarin misseri. Þegar þeir sem eru að tjá sig um þessi mál eru farnir að handvelja einstaka skatta eins og auðlindaskatt eða eitthvað slíkt þá hljómar það meira eins og pólitísk skoðun heldur en hagfræðileg greining. Við erum að sækja töluvert á tekjuhliðinni á næsta ári með því að draga úr ívilnunum til dæmis vegna ökutækjaumferðar, við erum með boðaðar auknar álögur á fiskeldið, við erum með tímabundna hækkun á tekjuskatti lögaðila og það eru fleiri atriði á tekjuhliðinni sem leggjast síðan með útgjaldahliðinni þannig að við bætum afkomuna með þessum aðgerðum í kringum 35 milljarða á næsta ári,“ segir Bjarni.

Vonandi rætist úr loðnuverðtíðinni

Fregnir bárust af því í gær um hugsanlegan loðnubrest en Hafrannsóknastofnun leggur til að engar loðnuveiðar verði stundaðar fiskveiðiárið 2023/24. 

„Eins og alltaf elur maður í brjósti von um að fá öfluga uppsjávarveiði á hverju ári og þetta sveiflast eins og við þekkjum. Það hefði auðvitað verið mjög gott við þessar aðstæður að fá þann búhnykk sem kæmi með öflugri vertíð,“ segir Bjarni spurður út í þessi tíðindi. 

„Það sem ég er nú farinn að minna mig sjálfan á í auknum mæli þegar við fáum tíðindi af stöðu uppsjávar veiðistofnanna er hversu miklu máli það skiptir að okkur hefur tekist á síðustu tíu árum að renna miklu fleiri stoðum undir hagkerfið. Þetta er ekki hlutfallslega þau áföll fyrir hagkerfið sem þetta áður var. Auðvitað vonumst til þess að það rætist úr loðnuvertíðinni. Þetta er ekki endanlegur dómur. Það er full ástæða til þess að halda í vonina um að það geti ræst úr vertíðinni,“ segir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert