Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir sérkennilegt að innrás palestínsku Hamas-samtakanna hafi komið Ísrael í eins opna skjöldu og virðist vera. Gerir hann ráð fyrir gríðarlega hörðum viðbrögðum Ísraela.
Í nótt hófst umfangsmikil innrás Hamas-samtakanna inn í Suður-Ísrael með þeim afleiðingum að hundruðir eru látnir. Myndbönd eru nú í dreifingu á fréttamiðlum og samfélagsmiðlum af miskunnarlausu ofbeldi Hamas-liða gegn almennum borgurum og hermönnum Ísraels.
Stjórnvöld í Ísrael segja að um stríð sé að ræða.
„Umfangið er það mikið að þetta er meira eins og innrás. Þeir virðast hafa tekið yfir einhverja litla landshluta og náð ísraelskum borgurum á vald sitt. Ég geri bara ráð fyrir gríðarlega hörðum viðbrögðum ísraelskra stjórnvalda á næstu klukkutímum og dögum. Það má gera ráð fyrir að þeir sprengi allt sem þeir geta hugsanlega talið vígbúnaðarhreiður Hamas á Gasa, þeir sprengi það allt í tætlur,“ segir Baldur í samtali við mbl.is og bætir við:
„Ef marka má söguna má gera ráð fyrir gríðarlega miklum og heiftarlegum viðbrögðum ísraelskra stjórnvalda því þetta er með alvarlegri árásum sem ísraelsríki hefur þurft að horfa fram á. Þetta er meira í átt að innrás frekar en einstaka sprengju- eða hryðjuverkaárásum sem hafa verið mjög reglulegar í Ísrael.“
Baldur segir að gera megi ráð fyrir því að Ísrael nái til baka því landsvæði sem Hamas hefur tekið á sitt vald frá upphafi innrásarinnar. Í kjölfar þess megi vænta dróna- og loftárása Ísraelshers á Gasa svæðið.
Ómögulegt sé að segja til um hversu lengi það muni standa yfir og nefnir Baldur sem dæmi að Egyptaland hafi þurft að miðla málum á milli Ísraels og Palestínu árið 2021.
„Það virðist vera að eitthvað hafi brugðist í vörnum Ísraels og komið stjórnvöldum í opna skjöldu. Það er mjög sérkennilegt að þeir hafi komist yfir varnarlínu Ísraelsmanna, tekið yfir landsvæði og náð ísraelskum borgurum og hermönnum á sitt vald.
Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Ísraelsríki og ég myndi halda að þetta yrði gríðarlegt áfall fyrir núverandi stjórnvöld í Ísrael.“
Baldur segir að ef litið sé á þessa innrás frá sjónarhorni þeirra sem styðji hana þá blasi við að um sé að ræða neyðaróp til alþjóðasamfélagsins.
„Ef horft er á þetta frá hinni hliðinni þá er það þessi áratuga kúgun á Palestínuöflum og ástandið í Gasa er orðið svo slæmt fyrir íbúana að þetta er eiginlega neyðaróp þessara hópa til alþjóðasamfélagsins.
Ég held að þeir geri sér fulla grein fyrir því að þeir muni ekki komast langt í þessari baráttu við herafla Ísraels og vita hverju þeir eiga vona á. Þetta er ákveðið neyðaróp til alþjóðasamfélagsins um að reyna að miðla málum og finna friðsamlega lausn á deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna.“