„Það er eins og heillastjarna hafi verið yfir okkur,“ segir Vilborg Ingólfsdóttir, sem var um borð í einni af síðustu vélunum sem fékk að taka á loft frá flugvelli í Ísrael í morgun.
Vilborg hefur undanfarna átta daga ferðast um Ísrael ásamt hópi Íslendinga og var brottför skipulögð í morgun. Hana óraði þó ekki fyrir endinum á ferðalaginu sem beið hópnum í dag.
Á fimmta hundrað hafa látist í átökunum í Ísrael og á Gaza-ströndinni síðastliðinn sólarhring. Yfirvöld í Ísrael hafa beðið íbúa um að halda sig innan dyra og hafa átökin m.a. haft áhrif á áætlunarflug, til og frá Ísrael.
Íslenski hópurinn lagði af stað með rútu frá Tel Aviv og upp á flugvöll um sjöleytið í morgun. Þegar rútan var við það að renna í hlað flugstöðvarinnar um klukkan hálfátta hófu loftvarnarflautur að óma.
Að sögn Vilborgar tók mikill viðbúnaður við íslenska hópnum er hann kom að flugstöðinni og var þeim sagt að skilja allan farangur eftir og hlaupa í neðanjarðarbirgi.
„Hendið frá ykkur farangrinum. Komið! Hlaupið, hlaupið,“ segir Vilborg er hún lýsir því hvernig öryggisverðir og starfsfólk flugvallarins tóku á móti ferðalöngum.
Að sögn Vilborgar var hópnum beint niður nokkrar hæðir í flugstöðinni og myndaðist mikill troðningur fólks í tröppunum. Þegar í neðanjarðarbyrgið var komið tók við tíu til fimmtán mínútna bið áður en talið var öruggt að fara upp aftur.
Þegar upp var komið við tók leit að farangrinum sem fólkið hafði hent frá sér, sem hafðist þó á endanum.
Eftir að hópurinn hafði lokið innritun og var kominn í öryggisleit var þeim aftur skipað að snúa við og leita skjóls í neðanjarðarbyrgi.
„Fólk var búið að setja vegabréfin á færibandið en það þýddi ekkert að taka það til baka aftur,“ segir Vilborg.
Var hópnum þá beint nýja leið og í annað neðanjarðarbyrgi og við tók fimmtán mínútna bið áður en fólkinu var hleypt upp á nýjan leik.
„Eftir það urðum við ekki vör við neitt og þetta gekk bara eðlilega áfram,“ segir Vilborg
Skipulögð brottför flugvélarinnar til Íslands var klukkan 11.10 og þrátt fyrir þessa uppákomu tafðist flugið ekki nema um hálftíma. Lenti íslenski hópurinn heill á húfi á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag.
„Það fékk ein önnur vél að fara á eftir okkur og svo var flugvellinum bara lokað.“
Vilborg segir íslenska hópinn nokkuð brattann eftir ferðina, sem hafi annars verið yndisleg, en kveðst þó guði þakklát að vera komin aftur heim.
„En auðvitað bregður öllum við svona. Það er enginn undirbúinn að svona geti komið fyrir,“ segir hún þó.