Fordæmi árásina með skýrum hætti

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kvað íslensk stjórnvöld hafa fordæmt árás Hamas-liða …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kvað íslensk stjórnvöld hafa fordæmt árás Hamas-liða á Ísrael með skýrum hætti þegar þingmaður Miðflokksins innti hana eftir því. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort ráðherrann fordæmdi palestínsku Hamas-samtökin fyrir mestu hryðjuverkaárás í sögu Ísraels þegar rúmlega þúsund hryðjuverkamenn Hamas réðust yfir landamæri Ísraels til þess að drepa þar fólk af handahófi.

Nefndi Sigmundur að um 260 ungmenni hefðu þar látið líf sitt á tónlistarhátíð sem helguð hefði verið friði, fólk myrt á heimilum sínum, konum nauðgað og börnum rænt. Samtímis þessu hafi þúsundum eldflauga verið skotið á Ísrael og enn óljóst hvert mannfall varð af þeim völdum.

Ekki að spyrja um ofbeldi almennt

Kvað Sigmundur nánast alla þjóðarleiðtoga Vesturlanda hafa lýst yfir fordæmingu á hryðjuverkunum og spurði í framhaldinu hvort hæstvirtur forsætisráðherra fordæmdi Hamas-samtökin og hryðjuverkin í Ísrael.

„Ég er ekki að spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann fordæmi ofbeldi almennt, það gera það flestir, og hvort hæstvirtur ráðherra vilji sjá frið. Það gera það flestir líka. En getur hæstvirtur forsætisráðherra Íslands tekið undir með öðrum þjóðarleiðtogum á Vesturlöndum og fordæmt afdráttarlaust Hamas-samtökin, hryðjuverk þeirra og þá sem afsaka þessi hryðjuverk eða styðja jafnvel?“ spurði þingmaðurinn að lokum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kvað svarið við spurningu Sigmundar algjörlega skýrt. Utanríkisráðherra hefði lýst afstöðu íslenskra stjórnvalda sem um leið væri afstaða forsætisráðherra. Íslensk stjórnvöld fordæmdu árásina með skýrum og afdráttarlausum hætti.

Breytt heimsmynd

Kvaðst Katrín ætla að fá að ræða stöðuna almennt þrátt fyrir orðalag í spurningu Sigmundar og sagði það gríðarlegt áhyggjuefni að sjá árásir á borð við þá í Ísrael þar sem afleiðingar þeirra gætu orðið miklar og haft áhrif langt út fyrir það svæði sem árásin var gerð á.

„Við erum að sjá átökum í heiminum fjölga og heimurinn er í raun og veru orðinn allur annar staður en hann var bara fyrir örfáum árum,“ sagði forsætisráðherra og bætti því við að það væri einnig áhyggjuefni fyrir Íslendinga að sjá þessa uggvænlegu þróun víða um heim. Afstaða íslenskra stjórnvalda væri hins vegar algjörlega skýr varðandi þessa tilteknu árás sem væri fordæmd.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert