Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hittist seinnipartinn í gær þar sem farið var yfir stöðu mála eftir að formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sagði af sér embætti fjármála- og efnahagsráðherra.
„Við hittumst í gær um eftirmiðdaginn til að sjá framan í hvort annað eftir vendingar dagsins, sem bæði komu á óvart og voru vonbrigði þó að við værum mjög stolt af Bjarna, hvernig hann hélt á sinni ákvörðun,” segir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, en fundurinn stóð yfir í um klukkustund.
„Hann fékk sem fyrr fullt traust frá flokknum í þessar vendingar áfram. Það var bara fallegt samtal.”
Næsti fundur þingflokks Sjálfstæðisflokksins verður á hefðbundnum þingflokkstíma, eða klukkan 13 í Alþingishúsinu í dag. Að sögn Hildar verður dagskráin hefðbundin þar sem farið verður yfir málin í þingstörfunum.
Spurð hvenær þingflokkurinn ætlar næst að fara yfir stöðuna í tengslum við afsögn Bjarna segir Hildur engan formlegan fund vera ákveðinn. Þau mál séu frekar á borði oddvita ríkisstjórnarinnar heldur en þingflokkanna á þessum stigum málsins.