„Samstaða með Ísrael? Hvernig dirfist þú?“

Sólveig Anna er ekki sátt með sameiginlega yfirlýsingu sem Bjarni …
Sólveig Anna er ekki sátt með sameiginlega yfirlýsingu sem Bjarni skrifaði undir. Samsett mynd

„Samstaða með Ísrael? Hvernig dirfist þú? Þú ættir að segja af þér þingmennsku. Búinn að blekkja kjósendur,“ svo hljóðar ein athugasemd sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, lét falla um Bjarna Jónsson, þingmann Vinstri grænna, undir færslu sem hann birti um yfirýsingu formanna landsdeildar Norðurlandanna og Eystrarsaltsríkjanna um hryðjuverkin gegn íbúum Ísraels.

Í grófum dráttum segir yfirlýsingin að formenn landsdeildanna fordæmi ólíðandi og ómannúðlegar árásir Hamas á ísraelsku þjóðina og að Ísrael hafi rétt á verja sig innan ramma alþjóðalaga. Þá var einnig hvatt til þess að saklausum gíslum sem Hamas-liðar tóku, og hóta nú að taka af lífi, yrði sleppt úr haldi. Í viðtali við mbl.is lagði Bjarni mikla áherslu á að Ísrael ætti ekki brjóta alþjóðalög .

Aðrir þingmenn skárust í leikinn

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ákvað svo að skerast í leikinn og hrósaði yfirlýsingunni.

„Sterk og sjálfsögð yfirlýsing og samhljóða þeim frá okkar nágranna- og vinaþjóðum! Auðvitað fordæmum við hryðjuverkaárásir, viðurstyggilegt ofbeldi gagnvart saklausum borgurum,“ segir Diljá.

Sólveig svaraði þessum ummælum Diljár.

„Bjarni Jónsson gaman fyrir þig að fá afdráttarlausan stuðning frá íslenska öfga-hægrinuSegðu af þér þingmennsku.“

En Diljá var ekki eini þingmaðurinn til að skerast í leikinn því Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar, spurði þá einfaldlega:

„Við eigum að fordæma hryðjuverkaárásir og hrottalegt ofbeldi gagnvart saklausum borgurum. Slíkt á aldrei rétt á sér sama hver eða hvaða þjóð á í hlut,“ segir athugasemd Hafdísar.

Sólveig tók ekki undir það sjónarmið.

„Nema þegar verið er að murka lífið úr fólkinu í Palestínu. Fullorðið fólk á að gæta þess að hafa ekki ósamræmanlegar skoðanir. Sérstaklega fullorðið fólk sem heldur að það eigi erindi í stjórnmál,“ segir Sólveig.

Telur fólk misskilja yfirlýsinguna

Athugasemdir bætast við, að er virðist, á hverri mínútu sem líður. Ein athugasemd Bjarna gefur það til kynna að hann telji fólk ekki alveg skilja innihald yfirlýsingarinnar.

„Ekki sannfærður um að þú skiljir hann. Verið að tala sérstaklega um þessa árás og morð á yfir 1200 saklausu fólki, ekki kúgun og meðferð Ísraelsmanna á Palestínumönnum undanfarin ár og áratugi.“

Heilu fjölskyldurnar fundist myrtar (mbl.is)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert