Uppstokkun á næstu dögum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti í gær afsögn sína …
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti í gær afsögn sína í ljósi álits umboðsmanns Alþingis á sölu á hlutum í Íslandsbanka og hæfi ráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég úti­loka ekk­ert varðandi framtíðina,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og frá­far­andi fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær­kvöldi um hvort hann muni áfram sitja í rík­is­stjórn en í öðru ráðuneyti.

„Ég tók eina ákvörðun í [gær] og ég á eft­ir að taka ýms­ar aðrar ákv­arðanir, en ég úti­loka það alls ekki að ég verði áfram í rík­is­stjórn­inni,“ seg­ir Bjarni, en verst að öðru leyti allra frétta.

Bjarni sagði af sér embætti á blaðamanna­fundi í gær­morg­un vegna álits umboðsmanns Alþing­is á sölu á hlut rík­is­ins í Íslands­banka. Hann kvað sér brugðið við niður­stöðu umboðsmanns og raun­ar miður sín yfir því áliti að sig hefði brostið hæfi í sölu­ferl­inu. Hann væri ósam­mála því, en hann virti álit umboðsmanns, sem gerði sér ókleift að starfa áfram í fjár­málaráðuneyt­inu.

Ráðherrakap­all í upp­sigl­ingu

Finna þarf ann­an fjár­málaráðherra og ekki síðar en um helg­ina, þegar halda á rík­is­ráðsfund á Bessa­stöðum.

Í því sam­hengi hafa marg­ir nefnt að Bjarni og Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra gætu haft stóla­skipti, en hún er sögð treg til vegna mik­il­vægra og viðkvæmra verk­efna á alþjóðavett­vangi. Vel kann því að vera að horft verði til annarra breyt­inga á ráðherraliðinu.

Morg­un­blaðið hef­ur heim­ild­ir fyr­ir því að bæði inn­an Fram­sókn­ar og Vinstri-grænna hafi komið fram hug­mynd­ir um stærri upp­stokk­un nú á miðju kjör­tíma­bili, jafn­vel þannig að flokk­ar skipt­ust á ráðuneyt­um. Í því sam­hengi mun einnig hafa verið rætt hvernig bregðast mætti við því ef umboðsmaður lýsti nei­kvæðu áliti á stjórn­sýslu ein­hvers ann­ars ráðherra.

Ef­laust er vilji til ein­hverra slíkra breyt­inga og nefnt að þar sé m.a. horft til mat­vælaráðuneyt­is og um­hverf­is­ráðuneyt­is.

Barið í bresti stjórn­ar­sam­starfs

Þing­flokk­ar Vinstri-grænna og Fram­sókn­ar munu í gær hafa sent ein­dreg­in skila­boð til sjálf­stæðismanna um að þeir vildu halda stjórn­ar­sam­starf­inu áfram, óháð ákvörðun Bjarna eða breyt­ing­um sem af henni kynnu að leiða.

Hins veg­ar var viður­kennt að hnökr­ar væru á stjórn­ar­sam­starf­inu, sem nauðsyn­legt væri að leysa og slétta úr ef stjórn­in ætti að eiga raun­hæfa mögu­leika á að kljást við viðfangs­efni eins og verðbólgu, ókyrrð á vinnu­markaði og fleira.

Af þeim ástæðum ætla stjórn­ar­flokk­arn­ir að nota næstu dæg­ur til þess að skerpa á aðaláhersl­um rík­is­stjórn­ar­inn­ar og efla liðsand­ann í stjórn­ar­liðinu. Í því felst m.a. að reynt verður að kort­leggja hvað það er sem veld­ur mönn­um mestu hug­ar­angri og hvernig sefa megi þær áhyggj­ur „í hvelli“, eins og einn stjórn­arþingmaður orðaði það.

Áður boðaður sam­eig­in­leg­ur vinnufund­ur þing­flokka stjórn­ar­inn­ar á föstu­dag verður því vafa­laust eft­ir­minni­leg­ur.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert