„Af hverju er hann hérna?“

Halldóra Mogensen.
Halldóra Mogensen. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, setti spurningamerki við hvers vegna Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra, væri staddur í þingsalnum í morgun.

Halldóra steig í pontu á eftir Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem sagði sjálfstæðismönnum og ríkisstjórnarflokkunum líða alveg ágætlega þessa dagana og þeir væru sáttir við ákvörðun Bjarna um að segja af sér embætti. Hann talaði um vanlíðan stjórnarandstöðunnar í tengslum við málið, sem bæri merki um hvað málefnagrundvöllur hennar væri grunnur. Bætti hann við að breytingar yrðu gerðar á ríkisstjórninni og að taka þyrfti vönduð skref í þá áttina.

Jón Gunnarsson.
Jón Gunnarsson. mbl.is/Hákon Pálsson

„Mér líður ekkert illa,” sagði Halldóra þegar hún steig í pontu og bætti við að henni fyndist það vandræðalegt hvað pólitík Sjálfstæðisflokksins væri óþroskuð og skammsýn.

„Hvað á ég að spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra út í? Út í fjármál ríkisins? Út í verðbólguna? Út í verkföllin sem eru að fara að koma? Er hann að fara að svara því? Hann á að vera hættur í þessu embætti. Af hverju er hann hérna?” sagði hún og bætti við:

„Þetta er svo óþroskað, þetta er svo skammsýnt og asnalegt og grefur undir traust fólks á lýðræðinu. Mér líður ekkert illa en mér finnst þetta vera svo ótrúlega óheiðarlegt.”

Hún sagði Bjarna hafa átt að víkja strax og láta annan svara fyrir fjármál ríkisins.

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert