Mikilvægt að rafhlaupahjól hindri ekki aðgengi

Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður vill regluverk þannig að rafskútur komi …
Steinunn Þóra Árnadóttir þingmaður vill regluverk þannig að rafskútur komi ekki í veg fyrir aðgengi.

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, fann sig knúna til að vekja athygli á regluverki í kringum rafskútur eftir að hafa séð skopmynd á samfélagsmiðlum. Hún segir mikilvægt að draga fötlunarsamhengið inn í umræðuna um fararskjótana. Umferð eins farartækis megi ekki vera til þess að auka enn frekar á aðgengishindranir fatlaðra í samfélaginu. Nóg sé af þeim nú þegar. 

Sá skopmynd á samfélagsmiðlum

Steinunn sá skopmynd á netinu þar sem athyglinni var beint að því hvað aukin geta sumra til að komast um með hjálp rafskúta hindraði ferðir annarra. „Svo að rafhlaupahjól geti verið sá frábæri samgöngumáti sem þau eru verður að vera regluverk þannig að þau hefti ekki för annarra,“ sagði Steinunn í samtali við mbl.is.

Steinunn hefur lagt fram fyrirspurn til Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra. Þar spyr hún til dæmis í hve miklum mæli brotum á reglum um rafhlaupahjól væri framfylgt. 

Ástæða til þess að skoða regluverkið

„Mér finnst skrítið hvernig það virðist vera hægt að hætta notkun og þar af leiðandi leigu á rafhlaupahjólum og skilja þau eftir úti á miðri gangstétt.“ Hún nefnir að hún hafi nýlega verið í Helsinki og hafi það stungið í stúf þegar rafskútur voru skildar eftir utan við skilgreind svæði. Það væri full ástæða til þess að skoða slíkar lausnir hérlendis. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert