Utanríkisráðherra Þýskalands hafnaði í gær gagnrýni á að seint hefði verið brugðist við að flytja þýska ríkisborgara brott frá Ísrael og sagði að brugðist hefði verið við neyðartillfellum, til dæmis með því að leita til íslenskra stjórnvalda vegna þýskra skólabarna.
Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, sat fyrir svörum í þýska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og var spurð um gagnrýni á hana fyrir að koma ekki á sérflugi til að forða þýskum borgurum frá Ísrael eftir árásir hryðjuverkasamtakanna Hamas fyrr en í gær, fimmtudag.
„Það er alltaf þannig að upp koma einstök tilvik þar sem segja má með rétti að þetta hafi ekki gengið nógu hratt,“ sagði Baerbock í spjallþætti Maybrit Illner. „En ég veit líka hvað þýska sendiráðið hefur verið að gera á vettvangi frá fyrsta degi.“
Þannig hefði hún sjálf verið í sambandi við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gísladóttur, utanríkisráðherra Íslands, þannig að nokkur skólabörn gætu flogið úr landi með viðkomu á Íslandi. Frá þessu var greint á vefsíðu Der Spiegel.
126 Íslendingar flugu heim með vélinni, sem fór frá Amman í Jórdaníu 9. október og lenti í Keflavík að morgni þess 10. Auk þess voru í vélinni eins og fram kom í frétt á mbl.is fimm Færeyingar, fjórir Norðmenn og tólf manna hópur frá Þýskalandi.