Senda ákall til Þórdísar

Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, og Þórdís …
Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi, og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra. Samsett mynd

Alþjóðaráð Rauða krossins hefur sent frá sér neyðarkall, sem Rauði krossinn á Íslandi tekur undir, vegna fyrirmæla ísraelskra yfirvalda til rúmlega milljón íbúa Gaza um að yfirgefa heimili sín innan sólarhrings.

Þetta kemur fram í ákalli Rauða krossins á Íslandi til utanríkisráðherra, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur.

Sólarhringur ekki nægur tími

Í ákallinu segir að sólarhringur sé ekki nægur tími til að rýma alla íbúa svæðisins, þar á meðal fólk með fötlun, aldraða, sjúklinga og veika og særða einstaklinga á sjúkrahúsum.

Auk þess hafi íbúar engan öruggan stað til að fara á vegna þess að allt svæðið sé umsetið og ómögulegt að vita hvar næsta árás muni eiga sér stað. 

Margir, þar á meðal fólk með fötlun, aldraðir og sjúklingar, muni ekki geta yfirgefið heimili sín. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum ber að vernda alla almenna borgara, líka þá sem þurfa að verða eftir.

Fyrirmælin andstæð mannúðarlögum

„Fyrirmælin samræmast ekki alþjóðlegum mannúðarlögum. Umsátrið veldur því að íbúar hafa ekki aðgang að mat, vatni né rafmagni og þegar hernaðaröfl gefa fólki skipun um að yfirgefa heimili sín verður að gera allar mögulegar ráðstafanir til að tryggja að fólk hafi aðgang að grundvallarnauðsynjum eins og mat og vatni og að fjölskyldur séu ekki aðskildar,“ segir í ákallinu.  

Alþjóðaráð Rauða krossins sé að efla þjónustu sína til að veita lífsbjargandi aðstoð, en teymi Rauða krossins þurfi hlé á átökum til að vinna á öruggan og skilvirkan hátt. Vegna umsátursins geti mannúðarsamtök eins og Rauði krossinn ekki aðstoðað við að flytja burt þá íbúa sem hefur verið skipað að fara. Þarfirnar séu yfirþyrmandi og mannúðarsamtök verði að geta aukið við hjálparstarf sitt. 

Íslensk stjórnvöld tali máli fólksins á alþjóðavettvangi

„Skrifstofa Alþjóðaráðs Rauða krossins fékk sömu fyrirmæli um að yfirgefa svæðið, sem og aðrar alþjóðastofnanir. Við höfum gríðarlegar áhyggjur af kollegum okkar í Gaza og fjölskyldum þeirra. 

Við biðjum íslensk stjórnvöld um að tala máli þessa fólks á alþjóðavettvangi, svo hægt verði að koma í veg fyrir stórkostlegar mannlegar hörmungar og þjáningu almennra borgara,“ að því er fram kemur í ákallinu.

Heimsbyggðin verði að grípa inn í til að hjálpa þessu fólki. Stríð sé ekki svarið. Morð á saklausum borgurum og eyðilegging innviða fyrir almenning sé ekki svarið. Allir aðilar verði að virða alþjóðleg lög um hernað og vernda almenna borgara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert