„Þú ert með krabbamein“

María Rún Gunnarsdóttir er komin aftur til vinnu hjá slökkviliðinu …
María Rún Gunnarsdóttir er komin aftur til vinnu hjá slökkviliðinu eftir að hafa sigrast á brjóstakrabbameini. mbl.is/Ásdís

Eftir næturvakt á slökkvistöðinni og smá svefn gaf María Rún Gunnarsdóttir sér tíma til að hitta blaðamann á heimili sínu í Kópavogi. Þar voru einnig heima hundarnir Halldór og Orka sem voru að vonum nokkuð spenntir fyrir gestinum, eins og hunda er siður. Á meðan þeir voru að samþykkja blaðamann hellti María upp á gott kaffi og sagði sögu sína, en nú er einmitt bleikur október; mánuður helgaður baráttu kvenna gegn krabbameini. María þekkir þá baráttu af eigin raun.

Hélt að ég færi í litla aðgerð

Fyrir rúmu ári, í ágúst í fyrra, fann María hnút í bringunni.

„Ég fann hann sjálf og fannst þetta skrítið,“ segir hún og segist fyrst hafa talað við mömmu sína og í kjölfarið hringt í Brjóstamiðstöð Landspítalans sem sér um brjóstaskimun.

„Ég hringdi og sagði þeim frá einkennum og ættarsögu og þurfti svo að gefa upp kennitölu. Þegar ég gaf upp kennitöluna fór konan næstum að hlæja og sagði að ég væri allt of ung. En hún ráðlagði mér að leita fyrst til heilsugæslunnar og svo kæmi ég til þeirra, sem var alveg skiljanlegt,“ segir hún og segist hafa verið komin í skimun viku seinna.

„Það var tekin mynd og mér sagt að ef það fyndist eitthvað myndi ég vera ómuð, sem var svo gert. Þegar læknirinn var svo að óma mig var hann ekki viss hvort þetta væri eitthvað og vildi framkvæma ástungu. Mér var sagt að ég myndi svo fá niðurstöður á Heilsuveru eftir tvær vikur ef þetta væri ekkert, en annars yrði hringt í mig,“ segir hún.

„Ég var einmitt á leiðinni til útlanda þarna nákvæmlega tveimur vikum seinna, til Spánar. Ég var búin að vera á Spáni í einn dag þegar ég fékk hringingu og þá vissi ég þetta bara. Ég var beðin um að koma í skoðun daginn eftir, en ég sagðist vera á Spáni og mér var sagt að njóta og slaka á og hitta svo brjóstaskurðlækni við heimkomuna. Hún vildi ekki segja mér neitt. Ég hélt ég væri bara að fara í litla aðgerð þegar ég kæmi heim og svo væri það bara búið.“

Eins og kasjúhneta að stærð

María segir að þau hjón hafi getað notið lífsins á Spáni og náð að ræða málin, en eiginmaðurinn, Dagur Rafn Ingvason, hefur staðið þétt við bakið á konu sinni.

„Ég var ekkert rosalega stressuð og fékk veikindaleyfi daginn sem ég átti að mæta til læknisins,“ segir María og lýsir hnútnum.

„Hann var í bringubeininu á milli brjósta, kannski eins og kasjúhneta að stærð,“ segir hún og segist hafa svo mætt til læknisins stuttu eftir heimkomuna. Þar hitti hún brjóstaskurðlækni og hjúkrunarfræðing.

María er alsæl með lífið í dag. Hún segist aldrei …
María er alsæl með lífið í dag. Hún segist aldrei hafa orðið reið yfir því að fá krabbamein. mbl.is/Ásdís

„Þau segja mér að ég sé með brjóstakrabbamein. Ég var búin að átta mig á því, en það var svo skrítið og óraunverulegt að heyra lækninn segja: „Þú ert með krabbamein.“ Maður býst ekki við því 26 ára þegar maður er ódauðlegur og heldur að ekkert komi fyrir mann.“ 

Ég er búin með þetta

Varstu einhvern tímann reið yfir því að fá krabbamein?

„Nei, alls ekki. Mér datt það ekki í hug. Ég var meira fegin að þetta var ég en ekki einhver annar í kringum mig. Mér fannst betra að ég tæki þetta á kassann.“

María segist ekki kvíða framtíðinni.

„Það sem gerist gerist. Ég er búin að ákveða að ég er búin með þetta og ætla ekki að gera þetta aftur. En ég er auðvitað með þessi gen sem auka líkurnar á öðrum krabbameinum líka,“ segir hún og segist vera undir góðu eftirliti.

„Ég vona að ekkert gerist en fyrst þetta þurfti að gerast var fínt að klára þetta á meðan ég var ung og hraust. Ég var mjög heppin í gegnum allt ferlið. Hugarfarið hjálpar manni ótrúlega mikið. Það fór allt á besta veg. Nú er ég mætt aftur til vinnu eins og ekkert hafi gerst.“

Ítarlegt viðtal er við Maríu Rún í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka