Vill gera einkunnarorð Sjálfstæðisflokks að sínum

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu á flokksstjórnarfundinum á Akureyri …
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, flutti ræðu á flokksstjórnarfundinum á Akureyri fyrr í dag. Ljósmynd/Aðsend

Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingar lagði til að flokkurinn gerði nokkurs konar einkunnarorð Sjálfstæðisflokksins, „frelsi og ábyrgð“, að sínum.

„Lykilorðin eru: Frelsi með ábyrgð. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er á undanhaldi sem breiðfylking þá getur Samfylkingin gert þessi orð að sínum: Frelsi — með ábyrgð.“

Þetta sagði Kristrún í ræðu sem hún flutti á flokksstjórnarfundi á Akureyri í dag.

Nefndi hún þessi nýju lykilorð í samhengi svokallaðs „Vaxtarplans fyrir Ísland“ til næstu ára og áratuga. Hlutverk hins opinbera sé að „skapa skýran ramma og taka ábyrgð á uppbyggingu og þróun samfélagsins“.

„Frelsi með ábyrgð“

Í samtali við mbl.is segir Kristrún að það hafi verið „þrusugóð stemning“ á fundinum og að hátt í 200 manns hafi mætt. „Það er ekki tómt sæti í salnum.“

„Við trúum að það þurfi að ýta undir verðmætasköpun í samfélaginu en við erum líka meðvituð um að slíku frelsi í atvinnulífinu fylgi ákveðin ábyrgð. Fylgja þarf ákveðnum ramma – að enginn sé skilinn eftir og að ákveðnir hlutir séu virtir – og þetta er bara mikilvægur partur af stefnu sósíaldemókrata,“ segir hún spurð um nýja slagorðið.

Fjöldi lét sjá sig á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Akureyri í …
Fjöldi lét sjá sig á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á Akureyri í dag. Ljósmynd/Aðsend

Stýrihópur um nýtt vaxtarplan

Spurð um þetta nýja vaxtarplan segir hún:

„Við erum í rauninni að fara af stað frá grunni alveg eins og í heilbrigðismálunum [í verkefninu Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum]. Við ætlum að taka fyrir atvinnumál, orkumál, ferðaþjónustu, sjávarútveg, svo ég nefni dæmi. Við ætlum að fara út, tala við fólkið landinu um það hvar við getum verið með raunhæfar breytingar fyrir næsta kjörtímabil.“

Síðan ætli flokkurinn að skila af sér tillögum sem hann telji munu ýta undir atvinnubyggingu og jafnvægi í atvinnulífinu. Þá hefur flokkurinn skipað sérstýrihóp til þess að vinna að verkefninu.

Vanfjármögnun LHG sýni að efnahagsstefnan sé gengin sér til húðar

Í ræðu sinni á flokksstjórnarfundinum sagði hún ríkja óstjórn í efnahagsmálum. Ljóst væri að Bjarni Benediktsson, fráfarandi fjármálaráðherra og nýskipaður utanríkisráðherra, „skilar ekki sérlega góðu búi“. Tók hún Landhelgisgæsluna sem dæmi og sagði neyðaróp heyrast frá Landhelgisgæslunni vegna vanfjármögnunar.

„Dómsmálaráðherra svaraði fyrirspurn minni um þetta á Alþingi á þá leið að Landhelgisgæslan væri vissulega vanfjármögnuð og væri búin að gera allt sem í hennar valdi stæði til að hagræða,“ sagði Kristrún í ræðustól og bætti við að slík staða væri til skammar fyrir Sjálfstæðismenn. 

„Landhelgisgæsla Íslands á að vera stolt okkar sem sjálfstæðrar þjóðar; eyríkis í Atlantshafi. Hún er flaggskip almannaöryggis á Íslandi.“

Fjársveltið sjáist „svart á hvítu“

„Við fáum yfirlýsingar þess eðlis frá dómsmálaráðherra að út af aðhaldsstefnu sem hefur verið stunduð úr fjármálaráðuneyti hennar samflokksmanns, þá standi þetta flaggskip frammi fyrir því að selja þyrlu, flugvél eða skip til þess að geta staðið undir rekstri,“ segir hún og heldur áfram:

„Þá sjáum við svart á hvítu hvað Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjársvelt þessa stofnun með sífelldum aðhaldskröfum, því aðhald á víst alltaf að vera á útgjaldahliðinni en aldrei er vilji til að taka á tekjuhliðinni. Þá lendum við í þessu ástandi með okkar mikilvægu stofnanir.“

Greint var frá því fyrr í dag að Bjarni Benediktsson tæki við utanríkisráðuneytinu og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, fráfarandi utanríkisráðherra, tæki við sem fjármálaráðherra. Sú ákvörðun er tekin í kjölfar þess að Bjarni sagði af sér sem fjármálaráðherra. Kristrún ræddi einnig við mbl.is um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert