Lægðir á leið til landsins „á fullri ferð“

Vindaspá Veðurstofu kl. tólf á hádegi miðvikudags.
Vindaspá Veðurstofu kl. tólf á hádegi miðvikudags. Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir vindasamt, blautt og milt veður á næstu dögum. Þetta segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Bliku, en vetur konungur hefur aðeins minnt á sig síðustu daga.

„Það kólnar aðeins fyrir vestan og norðan í fyrramálið en það verður bara tímabundið, því það koma lægðir til okkar á fullri ferð úr suðvestri og þær koma með milt og rakt loft,“ segir Einar í samtali við mbl.is.

„Þetta verður afgerandi um miðja vikuna, frá þriðjudegi og alveg fram á fimmtudag að minnsta kosti. Það hlýnar um allt land og þessi snjór sem hefur komið í vikunni á fjallvegum og þar sem við sjáum til fjalla tekur upp, alla vega fyrir neðan 800 metra.“

Lægðin á miðvikudag getur orðið skeinuhætt

Einar segir að spár séu aðeins misvísandi um það, hversu mikið kemur til með að rigna með þessum lægðum á Suður- og Suðvesturlandi. 

„Það verður slagveðursrigning og það mun slá í storm og þá aðallega sunnan- og vestanlands. Þetta eru að minnsta kosti tvær lægðir og sú fyrsta ryður brautina á þriðjudaginn. Lægðin á miðvikudaginn gæti orðið skeinuhættari. Svo er heilmikil hæð sem er á milli Íslands og Skandinavíu, sem heldur á móti og úr verður breiður og mikill vindstrengur hér yfir og í kringum landið.

Það verður því viðvarandi hvassviðri í tvo til þrjá sólarhringa með suðvestan átt,“ segir Einar og bætir því við að október eigi það til að vera blautasti mánuður ársins með haustlægðunum sem ganga yfir landið.

Alltaf erfitt í kringum frostmark

Margir ökumenn hafa lent í vandræðum síðustu daga vegna hálku víðs vegar um landið enda eru flestir ennþá á sumardekkjum. Löglegt tímabil fyrir nagladekk er frá 1. nóvember.

„Það hefur verið frekar kalt að undanförnu og úrkoman sem hefur komið hefur myndað hálku. Maður hefur séð það að bílar hafa verið að fara svolítið út af vegunum en sem betur fer hafa ekki orðið nein stórslys vegna hálkunnar.

Ég held að allur almenningur sé nú að fara varlega í svona aðstæðum. Þetta er alltaf erfitt þegar hitinn er í kringum frostmark. Þú getur bæði verið í bleytu og góðu gripi en svo getur myndast flughálka þess á milli.“

Veðurvefur mbl.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert