Dr. Sharon Nazarian, stjórnarmaður Anti-Defamation League, alþjóðlegum mannréttindasamtaka sem berjast gegn gyðingaandúð, segir í samtali við Morgunblaðið að þeir sem fordæma ekki hryðjuverkasamtökin Hamas, eins og formaður Félagsins Íslands-Palestínu (FÍP), séu augljóslega með vafasamar skoðanir um gyðinga. Segir hún gyðingaandúð vera meira á yfirborðinu um heim allan í kjölfar hryðjuverka Hamas-samtakanna 7. október þar sem á annað þúsund Ísraelar voru myrtir.
„Formaðurinn þeirra [FÍP] hitti leiðtoga Hamas árið 2010. Og árið 2014, í Gasaátökum, sagði hann við fjölmiðla að hann vonaðist eftir sigri hryðjuverkasamtakanna Hamas og íslamsks jíhads,“ segir dr. Sharon. Morgunblaðið hafði samband við Hjálmtý Heiðdal, núverandi formann FÍP, og kvaðst hann aðspurður neita að fordæma Hamas. Sagðist hann þó fordæma öll morð.
Sharon segir ótrúlegt að fólk geti sumt hvert ekki fordæmt Hamas.
„Það segir mikið um þig ef þú getur ekki fordæmt hryðjuverkasamtök sem fremja svona hryðjuverk gegn saklausu fólki og kúga sína eigin borgara. Þau slátruðu yfir þúsund manns, hvers konar mannréttindi eru það?“ spyr Sharon og bætir við:
„Ég veit að Íslendingum er mjög annt mannréttindi og þá sem minna mega sín. Þannig styðja sumir Palestínu. En það sem vekur áhyggjur, og við sáum það í Reykjavík á mótmælum á dögunum, er hvað fólk er tilbúið að réttlæta eða styðja við Hamas. Þetta eru hryðjuverkasamtök og það eru mistök að halda að Hamas berjist fyrir auknum réttindum Palestínumanna. Það skiptir máli á Íslandi að fólk læri um það hvernig Hamas kúgar sína eigin íbúa á Gasasvæðinu. Það er í stefnu þeirra að myrða gyðinga.“
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.