Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, sem fyrir skömmu afhenti Bjarna Benediktssyni, fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra lyklana að utanríkisráðuneytinu hefur formlega fengið lyklana að ríkiskassanum úr hendi fyrirrennara síns.
Segir hún í samtali við mbl.is að verkefnin fram undan leggist mjög vel í sig.
„Ég hlakka mikið til að takast á við risastór verkefni og miklar áskoranir og ég átta mig vel á þeim.“ Segist hún þakklát fyrir þau tvö ár sem hún hefur fengið í utanríkisráðuneytinu og fyrir að vera treyst fyrir að taka við fjármála- og efnahagsráðuneytinu.
„Því fylgir mikil ábyrgð og ég tek þeirri ábyrgð mjög alvarlega eins og ég hef gert hingað til. Þannig að þetta verða nýir tímar og ég er tilbúin í þessi verkefni,“ segir Þórdís Kolbrún.
Miklar áskoranir eru framundan í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, til að mynda verðbólga og hátt vaxtastig. Þórdís hyggst tala af eins mikilli ábyrgð og raunsæi og hún getur og vonast til að fá sem flesta í lið með sér í það verkefni að ná tökum á verðbólgunni þannig að forsendur skapist til að lækka vexti í landinu.
„Það er yfirmarkmið þessa ríkisstjórnarsamstarfs - oddvitanna, flokkanna, að ná tökum á verðbólgunni. Það verður mikil áskorun og það verður ekki sársaukalaust en ég finn ekki annað en að það sé mikil eftirspurn eftir því að við gerum nákvæmlega það.“
Þá segir Þórdís Kolbrún að allar fjölskyldur finni fyrir verðbólgunni.
„Öll þau sem borga af lánum og fara út í búð sem erum við öll. Öll þau sem reka fyrirtæki í þessu landi finna það líka. Þetta er ástand sem við viljum ekki hafa þannig að ég vonast til að við sem flest göngum í takt við það að ná tökum á henni.“