„Við erum ekki að gera nóg“

Ólafur Ragnar Grímsson hélt erindi á Nordic Circular Summit.
Ólafur Ragnar Grímsson hélt erindi á Nordic Circular Summit. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, var ómyrkur í máli í erindi sínu á Nordic Circular Summit í dag. Hann segir að mikilvægt sé að ráðast í umsvifameiri aðgerðir til þess að stemma stigu við loftslagsvánni. Norðurlöndum beri að nýta sér þekkingu sína og beita sér fyrir breytingum í heiminum öllum.

Staðan í heiminum gengur ekki mikið lengur samkvæmt Ólafi. Raunveruleikinn sé sláandi. Ekki er nægilega mikið sé að gert til að færa samfélagið í átt að meiri sjálfbærni. Hann segir að engin raunveruleg umskipti hafi átt sér stað ennþá. Raunveruleikinn sé að mörgu leyti sá sami þótt umræðan sé komin langt. 

Aðgerðir svo að börnin okkar geti átt heimili

Hann leiddi mál sitt að mikilvægi þess að þau sem eru börn núna geti átt heimili á jörðinni í framtíðinni. Sé ekki ráðist í harkalegar aðgerðir sé ólíklegt að slíkt heimili geti verið til um miðja þessa öld. Ekki mikill tími sé til stefnu til að bæta úr málunum áður en það verður orðið of seint.

Nordic Circle Summit var haldið í Grósku í dag.
Nordic Circle Summit var haldið í Grósku í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norðurlönd þurfi að líta út á við

Norðurlönd búa við mikinn munað. Ólafur segir að þeim hætti til að einblína um of á sitt litla heimshorn. Þau þurfi að beita sér fyrir því að skapa breytingar í öðrum heimshlutum. 

Ólafur segir að meirihluti fólks á jörðinni muni í nálægri framtíð búa í risavöxnum borgum í Afríku og Asíu. Norðurlöndunum hefur tekist að skapa friðsamleg og jöfn samfélög sem bera virðingu fyrir náttúrunni. Þeim beri að nýta þekkingu sína og taka þátt í þróuninni í þá átt á fleiri stöðum. 

Hann segir að ef ekki verði ráðist í að koma á hringrásarhagkerfi og sjálfbærri orku í Afríku og Asíu muni baráttan gegn loftslagsvánni tapast. Ofsafengið veðurfar og bráðnun jökla muni halda áfram. Það muni hafa mikla erfiðleika í för með sér fyrir Norðurlönd. 

Nordic Circular Summit er árleg ráðstefna sem haldin er um hringrásarhagkerfi. Hún er sú stærsta á Norðurlöndunum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert