Vill fjölga eftirlitsstörfum á landsbyggðinni

Ármann Kr. Ólafsson, formaður starfshópsins kynnir skýrsluna í dag.
Ármann Kr. Ólafsson, formaður starfshópsins kynnir skýrsluna í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ármann Kr. Ólafsson, formaður starfshóps um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum, telur að fjölga eigi eftirlitsstörfum á landsbyggðinni þar sem vantar fólk í tiltekin verkefni.

Ármann kynnti skýrslu starfshópsins í dag.

Sum staðar undirmönnuð

Ármann segir starfshópinn hafa kynnst því í sinni vinnu að sum heilbrigðiseftirlit úti á landi séu undirmönnuð.

„Það er augljóst í ljósi þeirra verkefna sem þarf að leysa að það þarf aukin mannfjölda og ég held að það fari langbest á því að fjölga störfum á þeim stöðum þar sem vantar fólk í tiltekin verkefni.“

Segir hann í samtali við mbl.is að til dæmis sé að verða mikið umleikis í fiskeldi og að allir geti verið sammála því að eftirlitshlutverkið þar þurfi að bæta og efla.

„Þá fyndist mér augljóst, án þess að ég hafi nokkuð um það að segja í sjálfu sér, að það gefur tækifæri til þess að hafa slík störf til dæmis á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þannig finnst mér einboðið að það þarf að fjölga störfum úti á landi.“

Enginn missir vinnuna

Segir Ármann að hann hafi undirstrikað að niðurstaða starfshópsins sé sú að öll störfin þurfi að vinna og þess vegna missi enginn starfið sitt.

„Útgangspunkturinn er kannski í tveimur orðum: Einfaldara Ísland. Þessar tillögur eru fyrst og fremst tillögur að því að einfalda þetta flókna umhverfi sem er bæði hjá ríki og sveitarfélögum og 11 stofnanir sjá um í dag með því að fara með það á eitt stjórnsýslustig og að tvær stofnanir sjái um verkefnin.“

Þetta er tillaga um breytingu á kerfinu að sögn Ármanns sem segir að svo eigi auðvitað eftir að útfæra það sem sé í rauninni risastórt verkefni sem kalli á mikið frekara samráð. Segir hann þá vinnu í rauninni að hefjast núna.

Ármann og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra spjalla …
Ármann og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra spjalla við fundargesti að fundi loknum. mbl.is/Árni Sæberg

Einfalda lagaumhverfi og slaka á kröfum

Ármann segir að tillögur starfshópsins taki einnig á því að einfalda lagabálka og minnka kröfur gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

„Það þarf að meta umfang verkefna útfrá áhættu þannig að við erum líka að leggja til að umhverfi atvinnulífsins verði gert einfaldara og þægilegra um leið og við munum nota upplýsingatækni mun meira til að leysa einstök verkefni,“ segir hann.

Hann segist binda vonir við að hægt verði að nýta löggildar skoðunarstofur í meira mæli og segir að það þurfi að fara vel ofan í þá vinnu.

„Það getur þá hugsanlega líka komið landsbyggðinni vel með því að færa verkefni skoðunarstöðva út á landsbyggðina þar sem það á við.“

Eitt öflugt upplýsingakerfi grundvallarforsenda

Að lokum nefnir Ármann mikilvægi þess að koma á laggirnar nýju upplýsingakerfi fyrir allt eftirlit.

„Það þarf að vera eitt öflugt upplýsingakerfi en í dag er verið að nota nokkur slík. Það er mikil vinna sem mun fara í það og það mun kosta og það er algjör grundvallarforsenda fyrir því að þessi heildarendurskipulagning nái í gegn og það sé hægt að vinna með hana sem slíka.

Þegar það er komið í gegn vil ég meina að það ásamt ýmsum lausnum varðandi upplýsingatæknina skili sér í hagræðingu í bæði sparnaði og einfaldara starfsumhverfi fyrir fólk og fyrirtæki.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert