Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingkona Pírata, skorar á Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra og ríkisstjórnina „að fordæma stríðsglæpi Ísraels gegn palestínskum borgurum og öll þau viðvarandi mannréttindabrot þeirra sem viðgengist hafa í áratugi“.
Arndís sagði þetta er hún tók til máls á Alþingi í dag umræðu um störf þingsins. Þar rak hún sögu heimstyrjaldanna tveggja og stofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) og nefndi að markmið SÞ væri að hörmungar líkt og þær sem sem urðu í seinni heimstyrjöldinni gerðust aldrei aftur. Vitnaði hún þar m.a. til ofsókna og tilrauna til útrýmingar sem gyðingar þurftu að sæta að hálfu nasista.
„Markmiðið var aldrei aftur,“ sagði þingkonan.
Nefndi Arndís þá að Genfarsamningurinn kveði á um að hernaðaraðgerðir á milli þjóða megi ekki beinast að saklausum borgurum „en þegar á reynir virðast reglurnar bara gilda um sum ríki en ekki önnur“.
Sagði hún þá að Ísraelsher hefði ítrekað virt reglur Genfarsamningsins að vettugi rétt eins og þær komi þeim ekki við – og ekki aðeins í núverandi átökum heldur „í gegn um ár og áratugi“.
„Skilmerkilega merkt heilbrigðisstarfsfólk og fjölmiðlafólk hefur verið skotið á færi. Íbúahús, skólar og spítalar hafa verið sprengd í loft upp, [og] almennir saklausir borgarar og börn.“
„Við heyrðum – réttilega – ótal fordæminga vestrænna ríkja á ofbeldi Hamas fyrir rúmri viku síðan. Þáverandi utanríkisráðherra Íslands fordæmdi aðgerðirnar opinberlega strax daginn eftir og ríkisstjórn Íslands tók undir – Ísland skyldi standa með alþjóðalögum,“ sagði Arndís.
Píratinn hélt áfram: „Lítið hefur aftur á móti heyrst frá sömu aðilum um framferði Ísraelshers síðan þá eða áður ef út í það er farið, sem þó hefur farið fram af slíku offorsi að jafnvel hörðustu stuðningsmönnum Ísraels blöskrar. Hvert fór loforðið um „aldrei aftur“?“
„Ég skora á utanríkisráðherra Íslands og ríkisstjórnina alla að fordæma stríðsglæpi Ísraels gegn palestínskum borgurum og öll þau viðvarandi mannréttindabrot þeirra sem viðgengist hafa í áratugi.“