Sláandi en ekki óvæntar niðurstöður

Guðlaugur Þór í Grósku í morgun.
Guðlaugur Þór í Grósku í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Verkefnið fram undan þegar kemur að loftslagsbreytingum og leiðum til að sporna við þeim er það langstærsta sem við stöndum frammi fyrir, að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

„Verkefnið er þess eðlis að samvinna er lykilorð,” segir Guðlaugur Þór, sem hélt ræðu við upphaf kynningarfundar vegna fjórðu matsskýrslu vísindanefndar um loftslagsbreytingar í morgun.

Í skýrsl­unni kem­ur fram að lofts­lags­breyt­ing­ar séu byrjaðar að breyta nátt­úrufari og lífs­skil­yrðum fólks á Íslandi með vax­andi áskor­un­um fyr­ir efna­hag, sam­fé­lag og nátt­úru.

„Það verður að hafa sveitarfélögin, þingið, þjóðina og atvinnulífið með í þessari vegferð, annars næst ekki árangur. Það tekur oft svolítinn tíma að vinna saman og það má færa rök fyrir því að tilskipanir séu fljótlegri leið en það er alveg ljóst að samvinna skilar miklu meiru,” bætir hann við.

Frá kynningarfundinum í Grósku í morgun.
Frá kynningarfundinum í Grósku í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Óþolinmóður maður

Spurður hvort verkefnið sé ekki krefjandi fyrir hann sem ráðherra segir hann það vissulega taka tíma og að hann sé óþolinmóður maður. Hann hefði viljað sjá marga hluti ganga mun hraðar en hann verði að sætta sig við það. Réttast sé að leggja meiri áherslu á samvinnu þó svo að undirbúningurinn taki lengri tíma. Þannig náist mun betri árangur.

Í ræðu sinni sagði Guðlaugur Þór niðurstöður skýrslunnar ekki vera óvæntar en engu að síður sláandi. „Það er margt nær í tíma heldur en maður ætlaði,” svarar hann, spurður hvað hann meinti með orðinu „sláandi”. Nefnir hann í því samhengi hækkun sjávarstöðu og súrnun sjávar og bendir á að sjávarútvegurinn sé einn af undirstöðu atvinnuvegum þjóðarinnar. Öll óvissa í tengslum við hann sé ekki af hinu góða. 

Ráðherrann kveðst vera ánægður með framsetningu skýrslunnar, enda mikilvægt að allir skilji hana, bæði almenningur og t.d. þeir sem taka ákvarðanir í skipulagsmálum.  Hann segir það áskorun að koma upplýsingum áleiðis og segir ríkisstjórnina hafa lagt mikið upp úr því að vera í góðu samstarfi við sveitarfélögin þegar kemur að loftslagsmálum.

Frá pallborðsumræðum í Grósku í morgun í tengslum við skýrsluna.
Frá pallborðsumræðum í Grósku í morgun í tengslum við skýrsluna. mbl.is/Árni Sæberg

„Svo erum við búin að vera í gríðarlegu samstarfi, til dæmis við atvinnulífið þegar kemur að því að vinna aðgerðaáætlun, því það er það fólk sem er að framkvæma það sem við erum að tala um. Það er gert að erlendri fyrirmynd en það er sífelld áskorun að koma upplýsingum áleiðis.”

„Góð fjárfesting til langs tíma“

Spurður út í kostnaðinn við að bregðast við loftslagsbreytingum segir Guðlaugur Þór skýrt ákall vera uppi um grunnrannsóknir. Kostnaður sé bæði við mótvægisaðgerðir og aðlögun.

„Við hefðum getað sagt þegar við fórum í orkuskipti eitt og tvö hér áður fyrr að þetta væru loftslagsaðgerðir. Við högnuðumst mikið á því,” segir hann og á þar við grænt rafmagn og græna hitaveitu.

„Þannig að við skulum hafa það í huga að þetta er góð fjárfesting til langs tíma. Það sama á við um hringrásarmálin sem kosta ekki alltaf peninga. Þetta snýst um viðhorf.”

Mats­skýrsla vís­inda­nefnd­ar um lofts­lagsbreytingar.
Mats­skýrsla vís­inda­nefnd­ar um lofts­lagsbreytingar. mbl.is/Árni Sæberg

Horfir til afa og ömmu 

Spurður hvað hann vilji segja við fólk sem telur baráttuna við loftslagsbreytingar vonlausa og miklar fyrir sér verkefnið, svarar Guðlaugur Þór: „Feður okkar og mæður, afar okkar og ömmur hlustuðu ekki á þetta. Þau notuðu að vísu ekki loftslagsrökin en það voru samt sem áður notuð umhverfisrök,” segir hann og vísar í grein í Morgunblaðinu fyrir borgarstjórnarkosningar árið 1938 þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hvatti lesendur til að kjósa hitaveituna.  

„Þarna vorum við Íslendingar sárafátæk þjóð með stórar hugmyndir og við framkvæmdum þær. Mér finnst að það sé okkar leiðarvísir þegar kemur að þessu. Ef afar okkar og ömmur og foreldrar gátu gert þetta þá hljótum við að geta gert þetta líka.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert