Lögregla hefur enn ekki haft afskipti af neinum grunuðum í tengslum við árás sem gerð var á ráðstefnugest Samtakanna '78 þann 26. september.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglu, segir málið enn til rannsóknar hjá lögreglu sem vinnur að því að safna gögnum.
„Við erum enn að safna gögnum og þar með talið myndskeiðum ef þau eru til. Við reynum að þaulleita það,“ segir Grímur.
Aðspurður segir Grímur það hluti af rannsókninni hvort um geti verið að ræða hatursglæp.
Greint var frá því í lok síðasta mánaðar að ráðist hefði verið á gest á ráðstefnu á vegum Samtakanna '78. Ráðstefnuna héldu samtökin í samvinnu við forsætisráðuneytið og norrænu forsætisnefndina. Um 100 fulltrúar frá öllum helstu hinsegin samtökum Norðurlandanna sóttu ráðstefnuna.