Fraktflugvél frá flugfélaginu BlueBird Nordic, sem var á leið frá Billund í Danmörku til Íslands, gat ekki lent á Keflavíkurflugvelli í morgun sökum veðurs og lenti vélin á Akureyri á níunda tímanum.
„Flugstjóri vélarinnar tók þá ákvörðun að lenda vélinni á Akureyri frekar en í Keflavík og ég geri ráð fyrir því að hann hafi tekið þessa ákvörðun sökum veðurs í Keflavík,“ sagði Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is.
Mikil röskun er á flugi vegna veðurs en gul viðvörun er í gildi fyrir höfuðborgarsvæðið, Faxaflóa, Suðurland og miðhálendið fram á kvöld. Brottförum frá Keflavík hefur ýmist verið frestað eða þeim aflýst fram eftir degi og sömu sögu er að segja um flug frá Reykjavíkurflugvelli.