Hussein Hussein, fötluðum flóttamanni frá Írak, og fjölskyldu hans hefur verið synjað um alþjóðlega vernd í annað sinn.
Fjölskyldan var flutt úr landi til Grikklands í nóvember í fyrra, í kjölfar fyrri synjunar. Hún fékk þó að snúa aftur eftir að héraðsdómur ógilti úrskurðinn.
Nú stendur til að vísa þeim aftur úr landi í ljósi annars úrskurðar frá kærunefnd útlendingamála. Lögfræðingur fjölskyldunnar segir þetta harkalega niðurstöðu.
Fyrri synjun um alþjóðlega vernd var tekin til héraðsdóms sem ógilti niðurstöðu kærunefndar Útlendingamála. Íslenskum stjórnvöldum var í kjölfarið falið að taka mál þeirra til nýrrar meðferðar. Í kjölfarið sótti fjölskyldan aftur um alþjóðlega vernd.
Það var gert á þeim forsendum að aðstæður í Grikklandi hefðu ekki samræmst niðurstöðum íslenskra stjórnvalda um þá þjónustu sem þeim stæði þar til boða. Í Grikklandi höfðu þau ekki gild dvalarleyfi. Biðtími eftir slíkum leyfum eru 8-9 mánuðir. Á meðan þau fást ekki nýtur fjölskyldan engrar þjónustu.
Íslenska ríkið áfrýjaði úrskurði héraðsdóms til Landsréttar þar sem það bíður enn meðferðar. Fyrri umsókn fjölskyldunnar um vernd er því enn til meðferðar fyrir íslenskum dómstólum.
Seinni umsókn fjölskyldunnar um alþjóðlega vernd var hafnað af kærunefnd útlendingamála á mánudag. Þau hafa sjö daga til að yfirgefa landið sjálfviljug.
Lögfræðingur fjölskyldunnar, Albert Björn Lúðvígsson, segir í samtali við mbl.is að hann telji rökstuðning kærunefndar gallaðan.
Hafa forsendur ekkert breyst á milli þessara tveggja úrskurða?
„Breytingin er að þau voru flutt til Grikklands og létu reyna á þær aðstæður sem kærunefnd útlendingamála telur vera til staðar þar, meðal annars rétt þeirra til heilbrigðisþjónustu. Þeim var synjað um alla þjónustu þar. Hussein glímir bæði við sjúkdóm og fötlun. Hann getur ekki beðið í 8-9 mánuði eftir því að fá endurnýjun dvalarleyfis á Grikklandi.“
Finnst þér eðlilegt að framfylgja þessum nýja úrskurði áður en niðurstaða Landsréttar liggur fyrir?
„Nei, mér finnst það ekki eðlilegt. Ég hef óskað eftir því að réttaráhrifum þessa úrskurðar verði frestað. Bæði vegna þess að héraðsdómur hefur nú þegar ógilt fyrri málsmeðferð stjórnvalda í máli þeirra og málsmeðferðin nú er að mörgu leyti sama marki brennd. Ég teldi það ekki rétta ákvörðun að framfylgja úrskurðinum. Ekki fyrr en dómur Landsréttar er fallinn.“
Telur þú líklegt að Landsréttur komist að sömu niðurstöðu og héraðsdómur?
„Ég tel miklar líkur á því. Það breytir þó engu til skamms tíma fyrir fjölskylduna því málið er ekki komið á dagskrá Landsréttar. Það er komin framkvæmdarhæf ákvörðun svo stjórnvöld geta flutt fjölskylduna úr landi.“
Albert segir stjórnvöld byggja seinni úrskurð sinn á sömu rökum og þann fyrri. Hann bendir á að í rökstuðningi kærunefndar gæti ýmissa þversagna. Hún taki til dæmis fram að Hussein þurfi sérhæfða heilbrigðisþjónustu og stuðning. En augljóst sé að hann fái þessa þjónustu ekki í Grikklandi.
Hann segir að kærunefndin taki fram að Hussein þurfi hjálp fjölskyldu sinnar við allar helstu daglegu þarfir sínar. Hún telji samt að hann eigi rétt á sjálfstæðu lífi í Grikklandi. Þetta feli í sér mótsögn. Ekki sé hægt að lifa sjálfstæðu lífi sértu háður fjölskyldu þinni um næstum allt.
Kærunefnd segi enn fremur að fjölskyldumeðlimir Husseins séu vinnufærir og geti séð fyrir sér. Á sama tíma rekur hún að það sé kannski ekki um auðugan garð að gresja að fá atvinnu fyrir flóttafólk í Grikklandi. Þar að auki þurfi öll fjölskyldan að vera til taks til að sinna daglegum þörfum Husseins. Ekki sé ljóst hvernig þeim eigi að takast að gera hvort tveggja.
Albert segir fjölskylduna hafa aðlagast íslensku samfélagi vel. Systkini Husseins tala öll íslensku. Systur hans stunda nám í FÁ og bróðir hans starfar hjá Þroskahjálp.
„Þau hafa lagt sitt af mörkum til íslensks samfélags. Þetta hefur þeim verið fært því Hussein nýtur ákveðinnar þjónustu hér.“
Í seinni málsmeðferð er fjölskyldunni gert að sæta bæði brottvísun og endurkomubanni. Það þýðir að þau megi ekki snúa aftur til landsins í tvö ár. Albert telur þetta afar harkalega niðurstöðu í málinu sökum þess að fjölskyldan bíður enn niðurstöðu dómstóla.
„Sú staða gæti hæglega komið upp að þau vinni málið fyrir Landsrétti en séu samt í endurkomubanni á Íslandi.“
Fjölskyldan hefur nokkra daga til að ákveða hvað hún vilji gera. Hvort hún vilji halda baráttunni áfram eða fara sjálfviljug til Grikklands.
„Brottflutningurinn gekk þeim nærri í fyrra. Þau eru mjög sár eftir þá meðferð lögreglunnar, sem byggði á offorsi, líkt og fjallað hefur verið um,“ segir Albert.
Niðurstaða stjórnvalda sé að þótt miklar líkur séu á að fjölskyldan muni hafast við á götunni, eiga erfitt með að sækja heilbrigðisþjónustu, atvinnu og framfærslu, séu það aðstæður sem hún þurfi að sætta sig við. „Ég held að það megi taka niðurstöðu kærunefndar saman þannig.“