Um 38% Íslendinga eru jákvæð í garð borgarlínunnar. Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Prósent framkvæmdi 14. til 28. september.
Spurt var hversu jákvætt eða neikvætt viðhorf svarenda væri gagnvart borgarlínunni.
Um 38% þjóðarinnar eru jákvæð, 21% hvorki jákvæð né neikvæð og 40% neikvæð, að því er segir í tilkynningu.
Mikill munur er á viðhorfi eftir aldri. Þau sem eru 18 til 24 ára eru jákvæðari gagnvart Borgarlínunni en aðrir aldurshópar. 45 ára og eldri eru neikvæðari gagnvart borgarlínunni en 18 til 44 ára.
Fólk sem er 65 ára og eldri er neikvæðast gagnvart borgarlínunni, eða 55%.
Munur er á viðhorfi eftir búsetu. Íbúar Reykjavíkur eru jákvæðari gagnvart borgarlínunni en íbúar Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar, Garðabæjar og íbúar landsbyggðarinnar.
49% Reykvíkinga eru jákvæð í garð borgarlínunnar, 39% Kópavogsbúa og Hafnfirðinga, 28% Mosfellinga, 27% Garðbæinga og 29% þeirra sem búa á landsbyggðinni.
Úrtakið í þessari netkönnun voru 2.700 manns og var svarhlutfallið 52%.